Mikilvægt er að tækifæri barna og ungmenna til að stunda íþrótta- og tómstundastarf séu ekki háð efnahag foreldra. Rannsóknir hafa sýnt að börn og unglingar sem taka þátt í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi gengur betur í námi, meta andlega heilsu sína betri, eru með betri sjálfsmynd og eru almennt ánægðari með líf sitt heldur en jafnaldrar þeirra sem ekki leggja stund á skipulagt íþrótta- og tómstundastarf. Því mætti segja að því að íþrótta og æskulýðsmál séu að einhverju leyti geðheilbrigðismál. Það er okkur mjög mikilvægt að öllum börnum líði vel.
Það má stuðla að því með frístundastyrkjum, sem Framsókn innleiddi á sínum tíma og hafa verið í Kópavogi um árabil. Styrkirnir hafa gert mörgum fjölskyldum kleift að börn geti lagt stund á skipulagt starf utan skóla. En betur má ef duga skal og við í Framsókn í Kópavogi höfum boðað næstu skref og við munum berjast fyrir að öll börn, 9 ára og yngri geti stundað íþrótta- og tómstundastarf sér að kostnaðarlausu.
Það er einnig mikilvægt að gleyma því ekki að íþróttastarf er gríðarlega fjölbreytt. Ekki velja sér allir fótbolta, þó sú íþrótt sé sannarlega vinsæl. Það er styrkur okkar sem samfélag að fagna fjölbreytninni og í Kópavogi er framboðið frábært. Hér er fjölmargt í boði bæði þegar kemur að íþróttum og öðrum tómstundum. Ýmiskonar tónlistarnám, myndlistarnám, skólahljómsveitir, skátastarf og svo mætti lengi telja og enn bætist við. Ný íþróttagrein hefur til að mynda verið að sækja í sig veðrið síðustu ár og aðeins eitt íþróttafélag í bænum býður upp á iðkun hennar. Skipulagt starf rafíþrótta (e. Esports) leggur ekki bara áherslu á færni í tölvuleikjum, heldur andlegt og líkamlegt heilbrigði, félagsfærni og tengslamyndun svo eitthvað sé nefnt.
Framsókn í Kópavogi vill efla rafíþróttastarf í bænum. Kópavogur er í frábæru færi til að vera leiðandi á sviði rafíþrótta hérlendis, við búum m.a. svo vel að hafa þjóðarleikvang rafíþrótta á Íslandi um það bil fyrir miðju bæjarins. Við megum nefnilega ekki gleyma því að það er margt annað í boði fyrir börn hér í Kópavogi heldur en vinsælustu íþróttagreinarnar og hér er mikil gróska. Öll eiga að geta fundið sig í einhverju og það er svo mikilvægt að muna að allt skipulagt íþrótta- og tómstundastarf hefur jákvæð áhrif á börnin okkar sem einstaklinga og meðlimi í samfélaginu. Til að viðhalda þessari grósku og fjölbreyttu framboði bæði íþrótta og tómstunda, þarf að styðja sérstaklega við minni félög og skóla sem bjóða upp á slíkt starf fyrir börn.
Tæplega 10.000 börn búa í Kópavogi og þau eiga það besta skilið. Með það að leiðarljósi boðum við gjaldfrjálst íþrótta- og tómstundastarf yngstu barnanna, að komið verði til móts við aukinn áhuga á rafíþróttum og efla annað tómstundastarf sem á borð við tónlistarnám og skátastarf. Framsókn í Kópavogi vill umfram annað að börn fái að blómstra og vera virk í því barnvæna samfélagi sem við hljótum að vera sammála um að bærinn okkar eigi að vera – og það á þeirra forsendum.
Heiðdís Geirsdóttir, félagsfræðingur, skipar áttunda sæti á lista Framsóknar í Kópavogi.