Hvers vegna Miðflokkurinn og óháðir í Kópavogi?

Við bjóðum kjósendum ekki upp á stór kosningaloforð, heldur látum frá okkur hugmyndir sem við vitum að við getum staðið við. Við viljum blómlegan, snyrtilegan bæ með kraumandi mannlífi. Við viljum lengja opnunartíma sundlauga og samræma þá allt árið um kring, sama viljum við varðandi opnunartíma menningarhúsanna okkar. Það verður sífellt meiri krafa íbúa að hafa markvissa afþreyingu fyrir fjölskyldur og einstaklinga, hvort sem er um að ræða bæjarhátíðir eða aðrar uppákomur og skemmtileg leiksvæði.

Við viljum gera göngu og hjólastíga örugga fyrir alla samgöngumáta. Til þess þurfum við að fara markvisst í tvöföldun stígakerfisins. Við erum á móti núverandi útfærslu núverandi hugmyndafræði Borgarlínu, sem við teljum alltof stóra og vera varasama óvissuferð er varðar fjármögnun sem sveitafélögin geta ekki staðið undir. Mörg framboð í þessum sveitastjórnarkosningum tala um ábyrga fjármálastjórnun, og er það öllum augljóst sem reka heimili eða fyrirtæki að endar ná ekki saman hjá Strætó og þar af leiðandi alls ekki ef núverandi Borgarlínuhugmyndir ná fram að ganga. Til eru hagkvæmari leiðir í almenningssamgöngum sem er svokölluð léttari leið sem hefur í för með sér minni stofnkostnað og minna rask innan bæjarmarkanna. Einnig er það okkar stefna að að kanna ætti til þaula aukinn áhuga almennings á að nota Strætó með því að hafa hann gjaldfrjálsann.

Það er fátt eins fallegt og barnsfæðingar. Kópavogur er barnvænn bær en þrátt fyrir það breytist stundum gleðin yfir nýju lífi í martröðina að leita að dagvistun fyrir litla krílið. Dagmæður eru of fáar og fá börn komast inn á leiksskóla við 12 mánaða aldur þegar fæðingarorlofi lýkur. Við veltum upp þeirri spurningu hvort launin séu of lág í „besta starfi í heimi“ og þá sérstaklega hjá ófaglærðu starfsfólki sem margt hvert hefur starfað við daggæslu árum saman með tilheyrandi reynslu sem ekki er nægilega metin til launa. Leiksskólar Kópavogs geta til dæmis tekið við fleiri börnum ef við náum að laða til okkar fleira starfsfólk. Til þess þurfa launin og umhverfið að vera gott. Við trúum ekki á heimgreiðslur/fjölskyldugreiðslur til ungra foreldra til að leysa dagvistundarvanda barna. Slíkt hefur áður verið reynt og hefur margsýnt sig að er leið að ójöfnuði og mögulega halda sérstaklega konum heima frá vinnu lengur.

Kæru Kópavogsbúar, við erum til þjónustu reiðubúin og hlökkum til að sjá ykkur á næstunni. Hlusta á ykkar hugmyndir og vinna í ykkar þágu.

Karen Elísabet bæjarfulltrúi, skipar fyrsta sætið á lista Miðflokks og óháðra
Geir Ólafs, söngvari og skipar annað sætið á lista Miðflokksins og óháðra. 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar