Hið árlega bókaspjall á Bókasafni Kópavogs

Dagur Hjartarson

Fimmtudaginn 17. nóvember verður hið árlega bókaspjall Bókasafns Kópavogs haldið. Hefst dagskráin kl. 20 á aðalsafni og höfundarnir sem mæta til leiks í ár eru Elísabet Jökulsdóttir, Dagur Hjartarson og Snæbjörn Arngrímsson. 

Elísabet Jökulsdóttir fjallar um bókina Saknaðarilmur sem er nýkomin út en Elísabet hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2020 fyrir bók sína Aprílsólarkuldi og var einnig tilnefnd til Fjöruverðlaunanna árið 2021. Nýjasta bók Elísabetar fær frábæra dóma og lætur engan ósnortinn. Dagur Hjartarson er með bókina Ljósagangur í jólabókaflóðinu í ár. Er þetta þriðja skáldsaga Dags og var Síðasta ástarjátningin sem kom út 2016 tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Evrópusambandsins 2017. Einnig hefur Dagur unnið til verðlauna fyrir ljóðabækur sínar. Er Ljósagangur ljóðræn og grípur stíllinn lesandann á áhugaverðan hátt. Snæbjörn Arngrímsson gaf út sína fyrstu bók fyrir fullorðna í ár, Eitt satt orð en hefur starfað sem bókaútgefandi, þýðandi og barnabókahöfundur. Vann hann Íslensku barnabókaverðlaunin árið 2019 fyrir Rannsóknin á leyndardómum Eyðihússins. Munu höfundar lesa upp úr verkum sínum.

Snæbjörn Arngrímsson

Guðrún Sóley Gestsdóttir, fjölmiðlakona og bókmenntafræðingur stýrir umræðum og boðið verður upp á léttar veitingar. Öll hjartanlega velkomin á meðan húsrúm leyfir.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar