Nú stendur yfir vinna við gerð fjárhagsáætlunar Garðabæjar fyrir árið 2023. Áætlunin var lögð fram til fyrri umræðu í byrjun mánaðarins. Eins og venjulega tekur áætlunin nokkrum breytingum þar til hún verður samþykkt eftir seinni umræðu. Endanleg áætlun verður lögð fyrir bæjarstjórn til samþykktar 1.desember. Þrátt fyrir að umræðu um áætlun sé ekki lokið tel ég mikilvægt að nefna nokkrar áherslur og eins áhugaverð mál sem eru enn til skoðunar á milli umræðna.
Fasteignaskattar lækka og lágmarksútsvar
Garðabær er eina stóra sveitarfélagið sem leggur á lágmarksútsvar. Álagningarprósenta verður að vanda óbreytt, 13,7%, sem er 0,82 prósentustigum lægra en hjá flestum öðrum sveitarfélögum. Lægri álagning í samanburði við aðra þýðir að við í Garðabæ skiljum eftir tæpan milljarð í vösum skattgreiðenda og fjölskyldna í Garðabæ. Það munar um minna.
Mikil umræða hefur verið um fasteignaskatta og -gjöld í kjölfar mikillar hækkunar á fasteignamatsstofni, en meðalhækkun í Garðabæ var 24% á íbúðahúsnæði. Við munum bregðast við þessu með myndarlegri lækkun álagningarprósentu og eins með lækkun á öðrum fasteignasköttum eins og holræsagjaldi og vatnsgjaldi. Með þessu tryggjum við að það ekki sé sjálfkrafa hækkun á álögum á íbúa umfram verðlagsþróun. Útfærslur á þessum breytingum eru enn í vinnslu og til umræðu og munu liggja fyrir á næstu dögum.
Hækkun gjaldskráa verður stillt í hóf en þó þarf að taka tillit til verðlagsþróunar í ljósi mikilla kostnaðarhækkana.
Forgangsröðun verkefna
Eins og gefur að skilja í umfangsmiklum rekstri eru mörg áhugaverð verkefni og áherslur sem við verðum að taka tillit til. Sum þeirra eru ný en önnur eldri. Meðal mála sem eru til umræðu er innleiðing á lögum um farsæld barna sem fela það í sér að þjónusta börn með markvissari hætti, ekki síst þeim sem þurfa meiri þjónustu af ýmsum ástæðum. Sérstakur verkefnisstjóri hefur störf fljótlega og verið er að vinna úr tillögum til að efla þessa þjónustu. Meðal annarra þátta sem eru til umræðu er heilsuefling eldri borgara, aukin áhersla á frístund barna, útfærsla ávaxtastundar fyrir grunnskólabörn, styrking eignasjóðs sem sér um rekstur og viðhald fasteigna. Miklu fleira væri hægt að nefna.
Átak í endurbótum húsnæðis og nýframkvæmdir
Miklar framkvæmdir eru fyrirhugaðar í Garðabæ á næsta ári. Góð samstaða er um að stórauka framlög til endurbóta á húsnæði í eigu bæjarins. Áætlunin gerir ráð fyrir að framlög til endurbóta verði u.þ.b. þrefölduð á milli ára. Með þessu viljum við leggja áherslu á að tekin verði stærri skref í endurbótum á skólahúsnæði og öðru húsnæði í eigu bæjarins en gert hefur verið undanfarin ár. Nýframkvæmdir verða einnig miklar og ber þar hæst bygging annars áfanga Urriðaholtsskóla, bygging leikskóla við Holtsveg og bygging búsetukjarna við Brekkuás. Þá munum við setja af stað fyrsta áfanga að uppbyggingu fráveitu í bænum, sem er stórt og mikilvægt umhverfisverkefni.
Áætlanagerð á traustum grunni og virkt samtal
Eins og fram hefur komið er fjárhagsleg staða Garðabæjar sterk. Skuldahlutfall er lágt og verður áfram lágt. Það er mikilvægur grunnur.
Við gerð fjárhagsáætlunar höfum við að vanda fengið mjög góðar ábendingar frá íbúum. Nú er verið að vinna úr þessum góðu tillögum og ábendingum, sem eru og hafa verið mjög mikilvægur þáttur af okkar áætlunarferli.
Samvinna ólíkra flokka sem eiga fulltrúa í bæjarstjórn um gerð fjárhagsáætlunar hefur verið góð. Ágætur samhljómur er um mikilvæg mál eins og endurbætur húsnæðis en eins og gengur er áherslumunur á milli aðila. Það er mikilvægt að samtalið í bæjarstjórn sé gott þótt áherslur séu á köflum ólíkar.
Þegar fjárhagsáætlun verður samþykkt endanlega munum við kynna innihald hennar með aðgengilegri og markvissari hætti en við höfum gert undanfarin ár. Ég vona að bæjarbúar muni kunna að meta aukna áherslu á upplýsingar sem tengjast fjárhagsáætlun.
Almar Guðmundsson, bæjarstjóri í Garðabæ