Fúsk eða fáfræði?

Það ætti öllum Kópavogsbúum að vera orðið ljóst að samstaðan í bæjarstjórn Kópavogs er engin síðan nýr meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks tók við í fyrravor. Þó um sé að ræða sömu gömlu meirihlutaflokkana varð endurnýjunin slík að reynsla og þekking nánast þurrkuðust út. Inn kom fólk sem virðist ekki hafa nokkra þekkingu á stjórnsýslu en með heil 100 kosningarloforð í farteskinu. Þau kosningaloforð verða til þess að leggja þarf niður heilu stofnanirnar því öðruvísi eru ekki til peningar fyrir kosningaloforðunum. Mál sem koma til meðferðar í stjórnsýslunni eru hroðvirknislega unnin. Aðrar ákvarðanir tekur bæjarstýran ein í sínu horni og ef heppnin er með okkur þá upplýsir hún okkur, kjörna fulltrúa, munnlega um áform sín. Annað lesum við um í blöðunum.

Aldrei hafa jafn mörg mál á jafn stuttum tíma farið í gegnum samþykktarferli þar sem áskilinn er slíkur trúnaður að ekki má einu sinni birta bókanir þar sem nefndarmenn gera grein fyrir afstöðu sinni. Við erum múlbundin og opinber umræða um tillögur bæjarstýru má ekki fara fram fyrr en að kemur að afgreiðslu í bæjarstjórn. Margsinnis hefur þessi meirihluti opinberað vanþekkingu sína í umræðu og afgreiðslu í bæjarstjórn þó svo að þátttaka meirihlutans í umræðu á bæjarstjórnarfundum sé lítil sem engin og áhugaleysið algjört. Hvort fólk er með öllu óundirbúið eða misskilur þann lýðræðisvettvang sem bæjarstjórarfundir eru, skal ég ekki segja til um. Ef allt væri eðlilegt mætti a.m.k. gera ráð fyrir að bæjarfulltrúar meirihlutans sem stýra nefndum geri fólk grein fyrir afstöðu sinni. Oddviti Framsóknar sem jafnframt er formaður bæjarráðs kemst upp með að þegja þunnu hljóði fund eftir fund þrátt fyrir að oft sé veruleg þörf á að gera grein fyrir málum úr bæjarráði.

Framganga meirihlutans, sem ekki virðist gera sér grein fyrir að opinber stjórnsýsla lýtur allt öðrum lögmálum en einkarekstur, er svo stórfurðuleg að verkja verður athygli Kópavogsbúa á því hvert ástandið er í stjórn bæjarins. Tökum dæmi.

Forseti bæjarstjórnar var í öðru sæti á lista Framsóknar. Þessi einstaklingur er líka leikskólastjóri á leikskólanum Urðarhóli. Í mars sl. barst bæjarstjórn erindi sem snerist um að létta á leikskólanum Urðarhóli. Það skyldi gera með því að færa rúmlega 30 börn af deild þaðan og yfir á Kópastein, annan leikskóla í sama hverfi. Fram kom í erindinu að stjórnendur leikskólanna Urðarhóls og Kópasteins hafi hafið samstarf um hugsanlega sameiningu þessara leikskóla. Ég ætla ekki að taka efnislega afstöðu til þess. Það gilda hins vegar stjórnsýslulög um meðferð mála af þessu tagi. Samkvæmt þeim eru starfsmenn sveitarfélaga sem hafa átt þátt í að undirbúa eða taka ákvörðun í máli sem lagt er fyrir sveitarstjórn alltaf vanhæfir. Við þær kringumstæður ber þeim að víkja af fundi á meðan málið er afgreitt. Framsóknarflokknum finnst hins vegar eðlilegt að leikskólastjórinn, með hatt forseta bæjarstjórnar leggi til fækkun barna á eigin leikskóla, taki fullan þátt í meðferð málsins og greiði loks um það atkvæði.

Á árinu 2023 er ekki boðlegt að „það sé bara best að kjósa Framsókn“ með þessum formerkjum. Við hljótum að gera kröfur um að fúsk af þessu tagi heyri fortíðinni til og það er lágmark að farið sé að lögum.

Theodóra S. Þorsteinsdóttir
Oddviti Viðreisnar.  

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar