Frá því að ég flutti í Kópavoginn árið 1962 nýfædd, hef ég fylgst með bænum mínum vaxa úr hálfgerðu strjálbýli í þétta byggð með götum sem ekki þarf lengur að skammast sín fyrir. Lengi vel var nefnilega litið niður á íbúa Kópavogs. Hér var víða barnmargt á heimilum og það fólk sem hér fékk úthlutað lóð og byggði sín hús, oftast sjálft var dugnaðarfólk. Ekki endilega með mikla menntun þó oft iðnmenntun. Allir hjálpuðust að og skiptivinna kom í stað lána sem voru af skornum skammti. En með dugnaði og þrautseigju varð bærinn að þéttri byggð sem ekki er lengur litið niður á heldur horft til, oft með aðdáun. En er innistæða fyrir henni?
Geta allir búið í Kópavogi?
Síðastliðin þrjátíu ár eða svo hafa Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur farið með völd nær óslitið í bænum. Á þessum tíma hefur hvert hverfið risið af öðru á óbrotnu landi. Þau eru vel skipulögð og eftirsótt til búsetu. Síðustu tíu ár hafa falleg og dýr fjölbýli sem henta vel stæðu eldra fólki vel, risið allvíða í bænum. Þetta hefur m.a. valdið því að hlutfall eldra fólks í Kópavogi er nú hærra en annars staðar sem munar 1%. Aldrei á þessu tímabili hafa bæjaryfirvöld úthlutað lóð til óhagnaðardrifinna byggingafélaga. Það má gera ráð fyrir að 20% íbúa hafi ekki efni á að kaupa fasteign. Þeir þurfa annan viðráðanlegan og öruggan kost eins og óhagnaðardrifin leigufélög bjóða upp á. Til þess að það megi verða þurfa sveitarfélögin að leggja til lóðir. Frá árinu 2016 hefur Reykjavíkurborg afgreitt 5.649 stofnframlög upp á 12% af kostnaði á móti 18% framlagi ríkisins til slíkra verkefna á meðan stofnframlög Kópavogs eru teljandi á fingrum annarrar handar. Í Reykjavík eru helmingi fleiri félagslegar íbúðir á hvern íbúa en í Kópavogi svo ekki skánar samanburðurinn þar. Í tíð vinstristjórna í Kópavogi á árunum 1974 – 1990 veitti Verkamannabústaðakerfið þeim sem ekki gátu óstuddir reist sér þak yfir höfuðið skjól. Margar blokkir voru reistar og íbúðir keyptar í öðrum. Þegar kerfið var lagt niður af hægri mönnum 1990 kom ekkert í staðinn og vandinn hefur stigmagnast æ síðan. Enn situr Kópavogsbær hjá í þessu lögbundna verkefni sveitarfélaga.
Berum við okkar byrgðar?
Ef við skoðum samræmda móttöku flóttafólks er staðan ekki betri. Í dag er heildarfjöldi í kerfinu 3.309 manns. Þar af hefur Kópavogur boðist til að taka á móti 101 manneskju eða um 3%. Reykjavík 1.500, Hafnafjörður 450, Reykjanesbær 350, Akureyri 350, Garðabær 180 og önnur sveitarfélög færri.
Kópavogur telur um 16% íbúa höfuðborgarsvæðisins og á að bera skyldur í samræmi við það. Af þessum tölum að dæma er langt í land að bærinn minn sé að standa undir sínum hluta sameiginlegrar ábyrgðar. Þessi staðreynd hryggir mig og gerir það að verkum að ég er ekki stolt af framgöngu yfirvalda í bænum mínum.
Bergljót Kristinsdóttir
Oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi