Ekki er nú öll vitleysan eins!

”Ekki er nú öll vitleysan eins” er oft haft að orði þegar fólki blöskrar heimskan í mannheimum. Þetta orðatiltæki kemur mér í hug þar sem innviðafyrirtækið Mílan er að störfum hér í götunni minni. Fyrirtækið er búið að skera malbikið víða um götuna og umturna heimreiðum. Þetta er gert til að koma fyrir nýjum ljósleiðara. En viti menn! Fyrir fáeinum árum var gatan skorin í sundur af öðru fyrirtæki í sama tilgangi. Hvað er í gangi?

Það er alkunna að ekki er þörf fyrir tvo ljósleiðara í sömu götunni; með sama hætti og ekki er þörf fyrir tvö holræsakerfi, tvær vatnsveitur og fleiri rafmagnsveitur í sömu götu. Það er einnig alkunna að í mörgum löndun hafa verið settar reglur um að það fyrirtæki sem fyrst er til að leggja ljósleiðara verður að veita öllum símafyrirtækjum aðganga að honum á sanngjörnum kjörum. En ekki á Ísland; ef marka má það sem gengur á hér í Hvömmunum í Kópavogi þessa dagana.

Hafa hið háa Alþingi og stjórnvöld sett svo heimskulega löggjöf og reglur um þessi mál að svona vitleysa telst í lagi? Ef svarið er já er er eðlilegt að spyrja hvort bæjarfélagið okkar getur ekki sett sínar eigin reglur til að stöðva óþarfa framkvæmdir á götum bæjarfélagsins. Þetta eru jú göturnar okkar sem verið er að spilla og þessu fylgir aukin viðhaldskostnaður. Sundur skorið malbik endist ver en heilt. Það er því eðlilegt að spyrja hvort Kópavogur geti ekki sett þá reglu, að fyrirtæki sem leggja ljósleiðara í bæjarfélaginu skuli veita öllum aðilum sem veita internetþjónustu aðgang að þeim gegn sanngjarnri þóknun fyrir afnot. Að umturna götum bæjarins fyrir nýjan ljósleiðara þar sem ljósleiðari er fyrir verði einfaldlega bannað.

Þessi dæmalausa framkvæmd sem blasir við í Hvömmunum vekur þá pólitísku spurningu hvaða þjónustu er skynsamlegt að hafa í opinberum höndum og hvaða á frjálsum markaði. Fyrirtæki á frjálsum samkeppnismarkaði geta verið besta leiðin til að ná fram samfélagslega hagkvæmum lausnum. En þegar kemur að nauðsynlegum innviðum þurfa yfirvöld að sýna mikla fyrirhyggju og setja skynsamlegar leikreglur, og hugsanleg er bara best innviðir séu í almannaeigu.

Sjá ljósmynd með grein úr Reynihvammi.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar