Það ríkti mikil gleði hjá 9 ára börnum í Barnaskóla Hjallastefnunnar á Vífilsstöðum á dögunum þegar þau komu sér fyrir í nýjasta húsnæði skólans, Bjálka. Húsið, sem er í eigu Hjallastefnunnar, er kærkomin viðbót við starfsemi skólans þar sem hver einasti fersentimeter hefur verið nýttur í ört stækkandi skóla. Börnin hafa fylgst náið með byggingu hússins og spennan eðlilega verið mikil að komast í glænýtt og fallegt hús.
Húsið er hannað og teiknað af Halli Kristmundssyni þar sem Jón Ragnar Magnússon og Jón Jóhannsson komu að útfærslum sem henta skólastarfsemi eins vel og mögulegt er. Jón Jóhannsson kom einnig að allri skipulagningu í samstarfi við Hjallastefnuna en hann þekkir vel til Hjallastefnunnar þar sem hann hefur unnið lengi við stefnuna í margvíslegum verkefnum. Hann sá einnig um uppsetningu á þessu fallega húsi sem fellur vel inn í skólaþorpið á Vífilsstöðum. Í húsinu, sem telur um 90 fermetra, er hátt til lofts og bjart því gólfsíðir gluggar eru á austur- og vesturhlið hússins. Mikið var lagt í lýsingu og allt rafmagn sem er stillanlegt eftir áherslu kennara með vellíðan barnanna að leiðarljósi. Húsið er með varmaendurvinnslu á loftræstingu sem tryggir gott loft alla daga í húsinu. Börn á 9 ára kjarna munu hafa vetursetu í húsinu ásamt sínu góðu kennurum; Ósk, Söru og Dóru.
Föstudaginn 22. september komu foreldrar barnanna í opinn hópatíma sem er námskynning skólans. Í opnum hópatíma fá foreldrar og forráðamenn tækifæri til að sjá og prufa nokkur verkefni sem börnin fást við í skólanum. Stundin var notaleg og gæddu fjölskyldur og kennarar sér á nýbökuðum rúnnstykkjum ásamt safa og kaffi. Starfsfóllk og börn eru mjög spennt fyrir vetrinum þar sem fjölbreyttar kennsluaðferðir verða í forgrunni sem gera skólastarfið skemmtilegt og skapandi.