Auðvitað viljum við sjá meiri metnað en það hjá Kópavogsbæ og verkinu verði lokið á kjörtímabilinu

Karlalið HK leikur í Bestu deildinni næsta sumar eftir árs veru í Lengjudeildinni, en á hverju vori fer af stað umræða um aðstöðumál HK, en eins og flestir vita leika þeir keppnisleiki sína á Íslandsmótinu inn í Kórnum, sem mörgum finnst mjög óspennandi. Aðalstjórn HK óskaði eftir því við bæjaryfirvöld í Kópavogi sumarið 2021 að skipuð yrði undibúningsnefnd vegna uppbyggingar keppnisvallar við Kórinn, utandyra og stúku.

Frosti Reyr Rúnarsson, hefur gegnt formennsku knattspyrnudeildar HK undanfarin 5 ár og þekkir því nokkuð vel til málsins. Kópavogspósturinn fór aðeins með honum yfir stöðuna og hvort það hafi áhrif á framgang knattspyrnudeildar HK að meistaraflokkar félagsins, karla og kvenna, þurfi að leika keppnisleiki sína á Íslandsmótinu innandyra.

Mikil gleðir ríkir innan okkar raða

En fyrst byrjuðum við að óska honum til hamingju með sætið í Bestu deild karla. Þið eru væntanlega ánægð með árangur sumarsins hjá strákunum og var þetta alltaf markmiðið fyrir tímabilið að fara upp að nýju? ,,Takk fyrir. Markmið sumarsins var að fara upp með meistaraflokk karla. Eftir von-brigði ársins 2021, þar sem við féllum um deild, ræddum við það strax við leikmenn meistaraflokks karla að við settum stefnu á að fara beint upp. Að það hafi gengið upp skiptir okkur miklu máli og mikil gleði ríkir innan okkar raða, leikmanna, stuðningsmanna, stjórnarfólks sem og annara sjálfboðaliða. Meistaraflokkur kvenna stóð sig líka gríðarlega vel og verður gaman að fylgjast með þeim á komandi árum.”

Skiptir öllu máli að spila í efstu deild

Hverju breytir þetta fyrir félagið að vera komið aftur í deild þeirra bestu í karlaboltanum? ,,Að spila í efstu deild skiptir öllu máli. Það þýðir stærri leiki, stærri umgjörð, fleiri áhorfendur, meiri tekjur svo eitthvað sé nefnt. Einnig verða fyrirmyndirnar stærri og hefur mikið að segja fyrir okkar öflugu ungu iðkendur sem hafa metnað að spila í Bestu deildinni.”

Grunnurinn þarf að vera góður til að ná árangri

HK stelpurnar voru lengi vel með í baráttunni í Lengjudeild kvenna að fara upp í Bestu deildina – vantaði herslumuinn þar, en er metnaður til að skapa lið fyrir þær til að komast upp í Bestu deildina? ,,Það vantaði lítið upp á að meistaraflokkur kvenna myndi komast upp um deild. Það er mikill upp- gangur í kvennaknattspyrnunni innan HK og teljum við að þær eigi eftir að láta mikið að sér kveða á næstu árum. Við viljum hafa báða meistaraflokka okkar meðal bestu liða landsins. Til þess að svo megi vera til lengri tíma þurfum við ávallt að vera huga að því hvernig við bætum barna- og unglingastarfið innan okkar félags. Grunnurinn þarf að vera góður til að ná árangri.”

Umtalsvert flækjustig að spila á Kópavogsvelli

Þið hafið frá árinu 2014 leikið innandyra í Kórnum á Íslandsmótinu í knattspyrnu og frá þeim hafa verið mjög skiptar skoðanir með þá ákvörðun ykkar og mörgum fundist mjög óspennandi að leika innandyra á Íslandsmótinu – svona til að rifja þetta upp – af hverju tókuð þið þessa ákvörðun? ,,Í dag höfum við val um að spila innandyra í Kórnum eða á Kópavogsvelli. Það væri klárlega umtalsvert flækjustig að spila á Kópavogsvelli og svo eru einnig tilfinningar í því bæði fyrir okkur sem og okkar ágætu nágranna. Það má því segja að við höfum takmarkað val. Við erum með æfingavöll fyrir utan Kórinn sem er ekki í fullri stærð eða uppfyllir skilyrði KSÍ til að geta spilað mótsleiki á þeim velli.”

Það var undirrituð viljayfirlýsing af fulltrúum Kópavogsbæjar, HK og Breiðabliks

Var engin áhersla lögð á það við bæjaryfirvöld í Kópavogi að þið fengjuð keppnisvöll og stúku fyrir utan Kórinn til að þurfa ekki að leika innandyra þegar þið fluttuð ykkur alfarið í efri byggðir Kópavogs? ,,Það var undirrituð viljayfirlýsing af fulltrúum Kópavogsbæjar, HK og Breiðabliks líklega árið 2013 þar sem tiltekin voru fjölmörg atriði sem þyrfti að klára til þess að uppskiptingu Kópavogs milli knattspyrnudeilda HK og Breiðabliks teldist vera lokið. Eitt af þeim fáum atriðum í þeirri viljayfirlýsingu sem enn er ólokið og Kópavogur hefur ekki efnt til þessa er uppbygging keppnisvallar og stúku fyrir utan Kórinn. Í málefnasáttmála núverandi meirihluta er kveðið á um að framkvæmdir við umrætt mannvirki verði hafnar á þessu kjörtímabili. Auðvitað viljum við sjá meiri metnað en það hjá Kópavogsbæ og verkinu verði lokið á kjörtímabilinu. Við verðum að treysta því að okkar ágæti bæjarstjóri og hinn viðkunnanlegi og hressi formaður bæjarráðs ásamt öðrum öflugum bæjarfulltrúum taki höndum saman og klári þessa framkvæmd á kjörtímabilinu sem hefur dregist um og of.”

Höfum við aldrei haft raunverulegan valkost til að geta spilað utandyra

Aðalstjórn HK óskaði eftir því við bæjaryfirvöld í Kópavogi sumarið 2021 að skipuð yrði undirbúningsnefnd eigi síðar en 1. septemnber 2021 vegna uppbyggingar keppnisvallar fyrir utan Kórinn. Viljið þið komast út úr Kórnum sem fyrst og leika utandyra? ,,Eins og nefnt hefur verið hér að ofan höfum við aldrei haft raunverulegan valkost til að geta spilað utandyra. Og eins og hefur komið fram þá var undirrituð viljayfirlýsing við hagaðila um að byggður yrði völlur og stúka utandyra fyrir HK. Nú þykir okkur nóg komið varðandi biðina á þeirri framkvæmd og viljum sjá efndir. Kópavogur er líklega það sveitarfélag sem hefur verið með öflugustu uppbyggingu íþróttamannvirkja á landinu og bæjarfélagið og bæjarbúar geta verið gríðarlega stoltir af þessum íþróttamannvirkjum. En betur má ef duga skal og við þurfum að búa til keppnisvöll utanhúss hjá HK svo við getum verið í fremstu röð með okkar starf.

Vonandi meiri áhugi hjá núverandi meirihluta

Og hver er staðan á þessu máli, var undibúningsnefnd skipuð í byrjun september 2021 og hvað hefur gerst á þessu rúma ári? ,,Einhverjir fundir hafa átt sér stað en á síðasta kjörtímabili virtist vera takmarkaður áhugi fyrir því að vinna málið innan veggja bæjarins þrátt fyrir stofnun nefndar um þessa framkvæmd. Vonandi verður meiri áhugi hjá núverandi meirihluta Kópavogs til að ljúka þessu máli á kjörtímabilinu.”

Klárt mál að einhver hluti leikmanna setur fyrir sig að spila við þær aðstæður

Hefur það háð ykkur með einhverjum hætti að leika keppnisleiki ykkar inn í Kórnum, eitt liða á landinu – erfiðara fyrir ykkur að fá leikmenn til að styrkja liðið? ,,Kórinn sem er eitt besta íþróttamannvirki á landinu hefur reynst okkur vel. Það sem skiptir knattspyrnulið sem æfa og spila á gervigrasi miklu máli er að gervigrasið fái ekki að eldast of mikið, þ.e. grasið þolir bara ákveðinn tímafjölda í notkun. Eftir það verða eiginleikar þess mun lakari. Sú þróun sem orðið hefur á því að leika á gervi-grasi er líklega mjög skynsamleg miðað við það land sem við búum á og veðurfar sem við búum við. Hins vegar virðast líklega flest sveitarfélög ekki gera sér grein fyrir endingartíma þessa valla. Hann er talinn í klukkustundum og í okkar tilfelli, þar sem völlurinn er í mjög mikilli notkun frá því upp úr hádegi og fram á kvöld á hverjum degi allt árið um kring, þarf auðvitað nýtt gras með reglulegri hætti en nú er. Jafnvel er það þannig að Kópavogsbær leigir út grasið alla daga á kvöldin þar sem spilaður er “bumbubolti” á grasinu þar sem vellin- um er skipt upp í fjóra velli og því eru kannski um 80 fullorðnir einstaklingar sem spila þar á hverri klukkustund. Það er einfalt að reikna hversu mikið álag völlurinn þolir miðað við iðkendafjölda og stærð þeirra, þ.e. auðvelt er að reikna hversu oft þarf að skipta um gras til að við séum með þau gæði á grasinu sem við viljum miða við. Varðandi leikmannamál er klárt mál að einhver hluti leikmanna setur fyrir sig að spila við þær aðstæður.“

Við viljum efndir fyrr en talað er um í þeim sáttmála

Ertu vongóður um að þetta mál geti komist á einhverja hreyfingu og hafið þið fengið einhver loforð frá bænum og hver eru næstu skref í málinu? ,,Eins og komið hefur fram er þetta í sáttmála meirihluta núverandi bæjarstjórnar. Við viljum efndir fyrr en talað er um í þeim sáttmála. Vonandi að núverandi meirihluti sé að vinna með að skila árangri umfram væntingar.”

Vonandi munum við leika á alls oddi innandyra

Og þið munuð leika inn í Kórnum næsta sumar? ,,Vonandi munum við leika á alls oddi innandyra í Kórnum næsta sumar. Við lofum því að ytri aðstæður svo sem mikill vindur, rigning eða snjókoma muni ekki setja mark sitt á leik okkar næsta sumar,” segir Frosti.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar