Allt í stokk og engar bremsur

Í Kópavogi eru tvær meginæðar sem slíta bæinn í sundur með tilheyrandi hávaða, mengun og slysahættu. Hér eru miðsvæði, en enginn miðbær, og við gætum gert svo miklu meira inn í hverfunum en við gerum í dag. Það er óhætt að segja að það séu tækifæri í skipulagsmálum í Kópavogi. Það er íbúðaskortur á höfuðborgarsvæðinu og íbúum fjölgar hratt, eða um 70 þúsund fram til ársins 2040.

Vaxi umferðin línulega í takt við íbúafjölgun á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum erum við að horfa upp á miklar umferðartafir, og nóg þykir manni nú þegar um. Það er því augljóst að framtíð Kópavogs veltur á því hvernig við hugsum samgöngur og skipulag til framtíðar. Byggðaþróunin okkar verður að vera samofin góðu samgönguneti. Greiðar samgöngur fyrir fjölbreyttan lífsstíl eru lífskjaramál.

Framsýn í skipulagsmálum viljum við sjálfstæðismenn leggja Reykjanesbrautina í stokk með grænni byggð meðfram stokknum og hefja hugmyndasamkeppni um göng í gegnum Hafnarfjarðarveg og um leið umbyltingu á Hamraborgarsvæðinu eins og við þekkjum það í dag. Það er á grundvelli þeirrar framtíðarsýnar sem við getum eflt almenningssamgöngur og aðra vistvæna samgöngumáta.

Sú framtíðarsýn birtist líka í stefnu okkar um sjálfbær hverfi þar sem íbúar geta sótt sem mest af sínum daglegu þörfum í göngufæri frá heimilum sínum, s.s. skóla, íþróttir, tómstundir, útivist, verslun og þjónustu. Með því að horfa inn á við styrkjum við hverfin og gerum þau skemmtilegri. Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki þétta byggð í Kópavogi öðru vísi en að fjárfesting í skólum, samgöngum eða öðrum innviðum sé tryggð.

Samgöngumál eru praktískt úrlausnarefni, ekki trúarbrögð.

Kostir vistvænna samgöngumáta eru ótvíræðir, eins og fólk sem hefur dvalið í erlendum borgir þekkir. Þeir minnka umferðartafir og stuðla að heilsusamlegra umhverfi, auk þess sem þeir draga úr útgjöldum heimilisins. Góðar almenningssamgöngur þurfa að vera hraðvirkar, tíðar, áreiðanlegar, aðgengilegar og þægilegar. Sérakreinar eru lykilatriði til að Borgarlínan virki fyrir notendur, og það má ekki gefa afslátt af þeim. Í þessari upptalningu kristallast stuðningur minn við borgarlínu. En þarf forgangsreinin að vera miðjuakrein? Hver er eðlileg ferðatíðni utan háannatíma? Hver á að borga? Það er mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn hafi skýrt umboð á öllu höfuðborgarsvæðinu til þess að svara þessum spurningum sem ráða úrslitum um hvernig verkefnið takist til.

Um leið þarf að klára sjálfsagðar og eðlilegar umbætur á stofnkerfi höfuðborgarsvæðisins, sem dæmi aukin afköst fyrirhugaðra mislægra gatnamóta Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar með tilliti til nýrrar byggðar í Vatnsendahvarfi og Vatnsendahlíð. Samgöngumál í efri byggðum verða ekki leyst með borgarlínu á næstunni og því þurfum við að nálgast samgöngumálin þar sem praktískt úrlausnarefni, en ekki trúarbrögð eins og of mörgum hættir til að gera. Við þurfum að auka öryggi allra í umferðinni, s.s. með metnaðarfullri áætlun um aðskilnað gangandi og hjólandi á stígum, draga úr umferðartöfum og mengun.

Andri Steinn Hilmarsson, varabæjarfulltrúi skipar 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar