Áhorfendur í Kópavogi eru frábærir

Örn Árnason, leikari og skemmtikraftur, hélt stórskemmtilega sýningu fyrir eldri borgara í Kópavogi í Salnum, föstudaginnmars sl., en það var Lista- og menningaráð Kópavogs sem ákvað að styrkja þetta verkefni og bjóða eldri borgurum frítt á skemmtunina.

Kópavogspósturinn spurði Örn hvers konar sýningu hann hafi boðið eldri borgurum upp á í Salnum? ,,Þegar maður uppgötvar allt í einu hvað maður er orðinn gamall þó að það séu nú ekki nema 62 ár þá er það samt sem áður bara nokkur ár frá löglegum eftirlaunaaldri, þá er eins gott að hafa hraðann á og leika sér um stund og þessi kvöldstund samanstóð af smá tilbrigði úr sýningu minni í Leikhúskjallaranum, Sjitt, ég er orðinn 60+, og svo revíudagskrá okkar Jónasar þar sem litið er hressilega til baka,” segir Örn.

Og hvernig áhorfendur eru svo eldri borgarar í Kópavogi? ,,Áhorfendur í Kópavogi eru frábærir hvort sem þeir eru eldri eða yngri.”

En hvernig kom það til að þú ákvaðst að setja þessa sýningu upp ú Leikhúskjallaranum? ,,Það er gaman að horfa til baka og líta yfir farinn veg og rifja upp eitt og annað sem maður er búinn að bardúsa í “bransanum” og á leiksviði og 70 mínútur eru langt frá því að vera nóg…en varð að duga að þessu sinni.”

Mér finnsta bara gott að eldast

Þú ert sjálfur orðinn 62 ára, sem er nú ekki hár aldur, en hvað finnst þér um að eldast? ,,Mér finnst bara gott að eldast. Sem betur fer á ég góðu láni að fagna heilsulega séð og vonandi verður það þannig áfram.”

Og þú ert sjálfsagt þakklátur að allt sýningarhald sé komið af stað aftur, nóg að gera um þessar mundir og í hvaða sýningum ertu? ,,Já, það er mikið að gera í ýmsu. Var að klára lestur fyrir Storytel um Hemingway, hljóðvarpsþættir eftir Lilju Sigurðardóttur, kardemommubærinn er allar helgar og svo reyni ég að sýna sýnguna mína einu sinni í viku.”

Stefnir á aðra sýningu næsta haust

Kemur til greina að vera með fleiri skemmtanir/sýningar fyrir eldri borgara í Kópavogi? ,,Já, það er verið að stefna á sýningu næsta haust með skemmtilegu innihaldi og það verður gerð betri grein fyrir því þegar það er komið á hreint.”

Og þá má með sanni segja, að hláturinn lengi lífið? ,,Jaa, hann allavega skemmir ekki fyrir, það hefur allavega enginn dáið úr hlátri ennþá, eða hvað?,” segir Örn brosandi.

Skemmtum okkur konunglega

Kópavogspósturinn sá að Soffía Karlsdóttir, forstöðumaður menningarmála Kópavogsbæjar lét sig ekki vanta og var mætt á sýninguna ásamt móður sinni, Huldu Bjarnadóttur. ,,Jú einmitt ég var á sýningu Arnars og Jónasar Þórs ásamt tæplega 90 móður minni og við skemmtum okkur konunglega. Fullt var út úr dyrum í Salnum og tóku gestir virkan þátt í flutningi Arnar með tilsvörum úr sal og sungu með í þeim vinsælu revíulögum sem Örn söng og kynnti fyrir gestum. Skemmtuninni var tvískipt. Í fyrri hluti dagskrárinnar flutti hann á skemmtilegan hátt prógramm, sem hann er með í Þjóðleikhúskjallaranum, um það að vera orðinn eldri borgari og eftir hlé fór hann yfir þekkt lög úr gömlum revíum, lög sem allir kunna en vissu ef til vill ekki að voru úr revíum,” segir Soffía.

Á léttu nótunum! Soffa Karlsdóttir, forstöðumaður menningarmála í Kópavogi ásamt Erni Árna og móðir sinni, Huldu Bjarnadóttur, fyrir sýninguna í Salnum.

Vildu gleðja eldri borgara

,,Lista- og menningarráð ákvað að styrkja þetta framtak sérstaklega með það í huga að gleðja eldri borgara í Kópavogi eftir alla þá menningarviðburði sem þau, rétt eins og aðrir í samfélaginu, hafa farið á mis við vegna Covid 19,” segir hún og bætir við: ,,Lista- og menningarráð hefur áður styrkt verkefni sem þessi, meðal ann-ars söngskemmtanir sem hefur verið afar þakkarvert. Við heyrðum af því að Reykvíkingar voru að stinga orðum að borg-arstjóra um það hvenær borgin tæki upp á því að bjóða sínum eldri borgurum upp á slíka skemmtun! En það er auðvitað mjög þakkarvert að lista- og menningarráð hlúi að eldri borgurum með þessum hætti og taki jákvætt í þær umsóknir sem þeim berast um slíka viðburð. En allar slíkar umsóknir eru vegnar og metnar af ráðinu hverju sinni. Vonandi koma fleiri slíkar hugmyndir á borð ráðsins frá þeim listamönnum sem geta boðið upp á dagskrá sem hentar þessum hópi fólks.
Örn er auðvitað einstakur skemmtikraftur og ótrúlegt hversu vel hann höfðar jafnt til fullorðinna og barna. Hér áður fyrr horfði ég á hann í hlutverki Afa á Stöð 2 með börnunum mínum og núna nokkrum áratugum seinna fer ég með aldraðri móður minni á skemmtun með honum og alltaf slær hann í gegn,” segir Soffía.

Forsíðumynd: Skemmtilegir félagar! Örn Árnason ásamt Jónasi Þór sem lék undir hjá honum á píanó

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar