825 viðburðir og sýningar – krafmikið menningarstarf í Kópavogi

Mikið var að gerast í menningarlífinu í Kópavogi árið 2021, þrátt fyrir áhrif heimsfaraldurs kórónaveirunnar. Í menningarhúsum bæjarins voru haldnir 825 menningarviðburðir og tæplega tvöhundruð þúsund gestir mættu í húsin. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýútkominni ársskýrslu MEKÓ, menningarmála í Kópavogi, fyrir árið 2021. Alls sköpuðust um 600 afleidd störf vegna viðburða og sýninga sem fram fóru á vegum bæjarins. 

Soffía Karlsdóttir, forstöðumaður menningarmála í Kópavogi segir að í skýrslunni sé farið yfir helstu rekstrarþætti málaflokksins auk sérstakrar umfjöllunar um hvert menningarhús bæjarins; Bókasafn Kópavogs, Gerðarsafn, Héraðsskjalasafn, Náttúrufræðistofu og Salinn. 

Soffía Karlsdóttir, forstöðumaður menningarmála í Kópavogi

,,Menningarstarfi bæjarins var haldið úti af rúmlega 63 starfsmönnum sem tilheyra málaflokknum en auk þess voru um 20 starfsmenn ráðnir tímabundið á árinu sem hluta af úrræði Vinnumálastofnunar. Afleidd störf, aðallega á meðal lista-, vísinda- og fræðafólks, voru um það bil 600 talsins árið 2021,” útskýrir hún og bætir við að það sé afar fjölbreyttur hópur sem kemur að hinni viðamiklu og ólíku menningardagskrá bæjarins sem árið 2021 taldi 825 viðburði og sýningar. Þá sóttu alls 41.675 gestir sem nemur 37% aukningu milli ára. Aukning er mjög ánægjuleg í ljósi þess að enn var mikið um samkomutakmarkanir allt árið 2021.  
,,Mikil áhersla er á menningarlæsi og menningalegt uppeldi grunnskólabarna og allt kapp lagt á metnaðarfull, skapandi og örvandi verkefni sem unnin eru af fagfólki á sérhverju sviði” segir Soffía en alls sóttu 9.309 börn og ungmenni á öllum skólastigum menningarhúsin heim í 386 heimsóknum. 

Ársskýrslan telur 88 blaðsíður. Þar er auk ofangreinds fjallað um menningarstefnu, hlutverk og leiðarljós málaflokksins, stefnumörkun, styrkveitingar, auk greiningar á fjármálum og mannauðsmálum.  „Árið 2021 var krefjandi í ljósi tíðra samkomutakmarkana, en með öflugu starfsfólki tókst okkur að halda úti viðamikilli starfsemi og brydda upp á ýmsum nýjungum. Við sem sinnum menningarmálunum fundum líka á þessum krítíska tíma hversu miklu máli menningin skiptir, fólk var þakklátt og fegið þegar hægt var að njóta menningar og mæta á viðburði af ýmsum toga. Svo má geta þess að við sættum færis eins og kostur var og sinntum viðhaldi menningarhúsanna, endurnýjuðum tækjakost í Salnum og hlúðum almennt að innviðum svo eitthvað sé nefnt. Við sem störfum að menningarmálum í Kópavogi horfum bjartsýn og full tilhlökkunar fram á veginn og sjáum fram á að hlutirnir séu að færast í rétt horf með talsverðri uppsveiflu í aðsókn og fjölda metnaðarfullra viðburða,“ segir Soffía að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar