Tónlist á flestum stöðum í brautinni. Stjörnuhlaupið fer fram 21. maí

Hið árlega Stjörnuhlaup, sem hentar fyrir alla fjölskylduna, mun fara fram laugardaginn 21. maí í blíðskaparveðri, eða það er óskandi í það minnsta. Hið nýja fjölnota íþróttahúss Garðabæinga, Miðgarður, verður upphafs og endapunktur hlaupsins, en í val er um tvær hlaupaleiðir.

Það er hlaupahópur Stjörnunnar sem sér um skipulagningu hlaupsins og Garðapósturinn heyrði hljóðið í Halldóri Þorkellsyni hlaupagarði og spurði hann hvernig stemmningin væri fyrir Stjörnhlaupið 2022? ,,Það er mikil og góð stemmning innan okkar raða. Nú er verkefnið að fá bæjarbúa til að fjölmenna og taka þátt í gleðinni með okkur sem og auðvitað alla aðra sem hafa gaman af því að hlaupa,“ segir hann.

Hvernig verður fyrirkomulagið í ár hvað varðar vegalengdir, einhverjar breytingar frá því í fyrra? ,,Við héldum hlaupið í fyrra í nokkuð breyttu formi frá fyrri árum. Þar vegur helst áhersla á að halda hlaupinu svo til einungis á göngustígum bæjarins og sem mest innan og meðfram íbúðarhverfum. Það gerum við til þess að auka á stemningu og draga meira líf að hlaupaleiðinni. Því til viðbótar höfum við lagt mikla áherslu á tónlist á sem flestum stöðum í brautinni. Þetta ætlum við allt saman að gera aftur í ár og bæta í.
Við erum síðan afskaplega spennt fyrir því að kynna Miðgarð til sögunnar sem upphafs og endapunkt hlaupsins. Þar er frábær aðstaða til að halda viðburð sem þennan. Þar eigum við eftir að geta haldið upphitun við frábærar aðstæður inni, boðið fólki að geyma verðmæti í læstum skápum meðan á hlaupi stendur og meira að segja bjóða þeim sem þess óska að nota búningsklefa og sturtur hússins.
Hvað vegalengdir varðar höldum við okkur við hina hefðbundnu 10 km vegalengd en í stað 2 km hrings bjóðum við nú upp á 4 km hring.“

Og þið leggið áherslur á að fá fjölskyldur saman til að hlaupa? ,,Við erum á því að Stjörnuhlaupið henti fjölskyldum afskaplega vel. Bæði er val um tvær vegalengdir sem og þetta fyrirkomulag að halda hlaupinu á göngustígum. Það eiga því flest allir að geta fundið braut sem hentar þeim.“

En þetta verður engu að síðu keppnishlaup fyrir þá sem vilja og tímataka? ,,Aldeilis. Í rásnúmerum allra hlaupara er flaga þannig að allir fá skráðan keppnistíma. Brautin er stórskemmtilega fyrir þá sem vilja taka vel á því.“

Og hvaða er margir sem koma að hlaupinu? ,,Það er þéttur og góður hópur félaga úr Hlaupahópi Stjörnunnar sem kemur að hlaupinu – bæði á hlaupa degi sem og við undirbúning hlaupsins. Í hlaupinu sjálfu gætum við vandlega að því að hafa fólk í brautinni við vörslu og til aðstoðar fyrir hlaupara. Við gerum það þó svo að við leggjum mikið uppúr því að merkja hlaupaleiðirnar vel og vandlega. Við munum síðan halda vel utan um alla eftir hlaupið í Miðgarði þar sem verður að finna hressingu og að sjálfsögðu góða tónlist.“

Og hvernig skrá hlauparar sig í hlaupið? ,,Skráning í hlaupið fer fram á hlaup.is. Við munum síðan gefa fólki kost á að skrá sig í hlaupið við afhendingu hlaupagagna daginn fyrir hlaup sem og á hlaupadegi.“

Og þetta er náttúrulega hressilegur og skemmtilegur viðburður sem allir ættu að taka þátt í? ,,Algjörlega – þó að fólk ætli sér ekki endilega að hlaupa þá er um að gera að koma og taka þátt í stemningunni. Bæði viljum við endilega sjá sem flesta í Miðgarði en ekki síður við brautina. Skorum því á alla Garðbæinga að kynna sér brautina og koma sér fyrir á góðum stað og hvetja hlaupara. Ekki verra að hafa með sér hátalara og láta tóna flæða. Fyrir marga dugar að fara út í garð heima hjá sér eða út á svalir,“ segir Halldór að lokum og nú er bara um fyrir Garðbæinga að taka þátt og skrá sig í hlaupið á hlaup.is enda um ánægjulegan fjölskylduviðburð að ræða.

Myndir fra hlaupinu í fyrra

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar