Stafræn sundkort tekin í notkun fyrir íbúa

Stafræn sundkort Garðabæjar eru komin í loftið fyrir íbúa og aðra notendur almenningssundlauga Garðabæjar, í Ásgarði og á Álftanesi. Hægt er að kaupa staka miða, tíu og þrjátíu miða kort og svo árskort en í stað þess að fá plastkort í hendurnar sækir fólk stafrænt kort og setur það í snjallsímann sinn sem það notar svo til að fá aðgengi að sundlaugunum.

Gömlu plastkortin munu halda áfram að gilda fyrir þá sem kjósa að nota þau.

Stafrænu sundkortin voru formlega tekin í notkun við athöfn í Ásgarðslaug í lok síðustu viku. F.v. Sunna Sigurðardóttir, verkefnastjóri Garðabæjar, Kári Jónsson Íþrótta-, tómstunda- og forvarnafulltrúi Garðabæjar, Kristján Hilmarsson forstöðumaður íþróttamannvirkja og Björg Fenger

17 ára og yngri og 67 ára og eldri geta sótt kort sér að kostnaðarlausu

Til að kaupa kort þarf að fara á gardakort.is eða skanna QR kóðann sem er á myndinni hér fyirr neðan, velja hvaða kort skal að kaupa af þeim fjórum tegundum korta sem í boði eru og fara svo í gegnum greiðsluferli til að greiða fyrir kortið. Þegar kort (önnur kort en stakir miðar) eru keypt þarf að auðkenna sig með rafrænum skilríkjum. Athugið að börn 17 ára og yngri og 67 ára og eldri geta sótt kort sér að kostnaðarlausu. Til að sækja kortið í símann þurfa Android notendur að sækja appið “SmartWallet” í Google Play en Iphone notendur fá kortin inn í Wallet hjá sér, á sama stað og bankakort og stafræna ökuskírteinið er að finna. Síminn er svo opnaður og borinn upp að skanna við inngang sundlaugar til að fá aðgang að sundlauginni.

Þróun á kortunum heldur áfram

Stafrænu sundkortin eru þróunarverkefni sem leitt er að Garðabæ og gaman verður að sjá hvort fleiri sveitarfélög munu í framhaldinu taka lausnina í notkun í sundlaugum sínum. Vert er að benda á að stafrænu kortin eru enn í þróun og verða þau þróuð áfram í samvinnu við sundlaugagesti til að ná fram sem mestum þægindum fyrir þá. Allar spurningar um kortin eða athugasemdir varðandi þau má senda á [email protected]. Stafrænu kortin voru þróðuð í samvinnu Garðabæjar með góðum samstarfsaðilum hjá íslensku fyrirtækjunum Smart Solutions, Wise og Tækniviti og eru þeim færðar miklar þakkir fyrir samstarfið.

Forsíðumynd: Björg Fenger, formaður íþrótta- og tómstundaráðs í Garðabæ, tók formlega í notkun nýja stafræna sundkortið sl. fimmtudag

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar