Garðbæingar eru til fyrirmyndar segir umhverfis- og auðlindaráðherra

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í síðustu viku auglýsingu um stækkun fólkvangs í Garðahrauni efra og neðra, Vífilsstaðahrauni og Maríuhellum.  
 
Garðahraun efra og neðra, Vífilsstaðahraun og Maríuhellar voru friðlýst sem fólkvangur í apríl 2014. Fólkvangurinn er hluti af Búrfellshrauni sem rann fyrir um 8100 árum og er talið sérstætt á heimsvísu.  Stækkun fólkvangsins nær annars vegar til norðvestur hluta Garðahrauns efra og votlendis í Vatnsmýri hins vegar. Vatnsmýri er gróskumikil flæðimýri neðan Vífilsstaða og er þar fjölskrúðugt fuglalíf. Innan fólkvangsins finnst plöntutegundin ferlaufungur sem er friðlýstur og er metin sem tegund í yfirvofandi hættu. Einnig vaxa þar blátoppa og munkahetta sem eru á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands. 

Markmið friðlýsingarinnar er m.a. að tryggja aðgengi almennings að náttúru svæðisins til útivistar, náttúruskoðunar og fræðslu í þéttbýli sem og að að vernda jarðmyndanir sem eru fágætar á heimsvísu, náttúrulegt gróðurfar og dýralíf.  

„Garðbæingar hafa verið til fyrirmyndar í því að taka frá svæði í þágu náttúruverndar og nú stækka friðlýst svæði innan marka Garðabæjar enn,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Við sáum það svo skýrt í heimsfaraldrinum hvað aðgengi að friðlýstum svæðum í nærumhverfinu skiptir fólk miklu máli til ýmiss konar útivistar og afþreyingar. Við vitum líka að aðgengi að grænum svæðum eykur lífsgæði og stuðlar og bættri lýðheilsu, svo þetta er heillaskref fyrir Garðbæinga og okkur öll sem getum nýtt svæðið.“  

Undirbúningur stækkunar fólkvangsins var unninn af samstarfshópi sem í áttu sæti fulltrúar Umhverfisstofnunar, Garðabæjar, Minjastofnunar Íslands og Oddfellowa. 
Viðstaddir undirskriftina voru auk ráðherra og bæjarstjóra, fulltrúar bæjarstjórnar, skipulagsnefndar og umhverfisnefndar Garðabæjar, ásamt starfsmönnum sveitarfélagsins og fulltrúum Oddfellow, Umhverfisstofnunar og ráðuneytisins, en stækkunin hefur verið unnin í góðu samráði fulltrúa þessara aðila.

Garðahraun og Vífilsstaðahraun

Garðahraun og Vífilsstaðahraun (Svínahraun) eru hlutar hins svokallaða Búrfellshrauns. Hraunin eiga uppruna sinn í Búrfellseldstöðinni og eru talin vera um 8100 ára gömul eins og áður segir. Svæðin eru aðgengi-leg og henta vel til útivistar, fræðslu og rannsókna fyrir áhugamenn jafnt sem vísindamenn. Innan þeirra eru merkar söguminjar, s.s. Berklastígur, sem var útivistarstígur sjúklinga frá berklahælinu á Vífilsstöðum og sk. Atvinnubótastígur, sem lagður var í atvinnubótavinnu frostaveturinn 1918, en var aldrei tekinn í notkun.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar