Flataskóli. Opið hús 3. mars.

Flataskóli – Framsækið skólastarf á traustum grunni

Flataskóli hefur frá árinu 1958 menntað unga Garðbæinga við góðan orðstír. Í skólanum eru nú við störf liðlega 430 nemendur á aldrinum fjögurra til tólf ára en við skólann starfar leikskóladeild ásamt 1.-7. bekk grunnskóla.

Ágúst Jakobsson, skólastjóri í Flataskóla

Einkennisorð skólans eru menntun, árangur og ánægja og lýsa þau ágætlega þeim gildum sem við leggjum til grundvallar í starfinu. Í Flataskóla leggjum við ávalt kapp á að veita menntun eins og hún gerist best í samræmi við áherslur og þarfir hvers tíma. Við leitumst við að ná sem bestum árangri sem einstaklingar og sem heild og að styðja hvert annað til góðra verka. Við minnumst þess að skólinn er ekki bara undirbúningur undir lífið heldur hluti af lífinu sjálfu og því leggjum við áherslu á að gera hvern dag sem ánægjulegastan. Vingjarnleiki, virðing, samkennd, ábyrgð og mannrækt einkennir samskiptin innan skólans og lögð er áhersla á persónuleg samskipti í heimilislegu andrúmslofti. Skólinn á gott samstarf við foreldra og starfsmenn vinna markvisst að því að nám og starf allra nemenda miðist við þarfir þeirra, getu og sterkar hliðar. Skólastarfið byggir á gömlum grunni og við eigum margar góðar og gamlar venjur sem mynda góðan ramma um starfið en á sama tíma leitum við sífellt nýrra leiða til að læra og ná framförum.

Í Flataskóla leggjum við mikla áherslu á að nemendur fái tækifæri til að tjá hugmyndir sínar og tilfinningar á margvíslegan hátt. Lýðræðislegir samskiptahættir og vinnubrögð eru æfð markvisst. Skólinn hefur hlotið viðurkenningu sem réttindaskóli Unicef þar sem unnið er markvisst eftir Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í öllum hópum eru reglulegir bekkjafundir þar sem nemendur þjálfast í að ræða saman og leysa ýmis mál sem upp koma. Við teljum það eitt af aðalhlutverkum okkar að hvetja nemendur til aukinnar meðvitundar um vinsamlegt samfélag og áhrif hvers einstaklings bæði á sitt líf og annarra. Árlega taka nemendur og starfsmenn þátt í góðgerðarverkefnum sem hafa það markmið að láta gott af sér leiða fyrir aðra.

Vikulega taka allir nemendur þátt í aldursblönduðu fjölvali þar sem hver og einn fær tækifæri til að velja viðfangsefni út frá sínu áhugasviði. Markmiðið með fjölvalinu er að auka sjálfstæði allra barna, gefa þeim kost á að hafa áhrif á eigið nám og efla þar með styrkleika sína. Allir nemendur skólans fá ríkulega kennslu í list- og verkgreinum enda er aðstaða til slíkrar kennslu mjög góð. Í Flataskóla hefur frá upphafi verið rík tónlistarhefð og hluti af henni er morgunsöngur á sal. Tvisvar í viku koma allir nemendur og starfsmenn saman og syngja en einu sinni í viku er einnig samvera á sal sem árgangar skiptast á að hafa umsjón með. Þannig gefast börnunum fjölmörg tækifæri til að stíga á stokk með leikþætti, tónlistaratriði eða önnur skemmtiatriði. Lögð er áhersla á hreyfingu og útivist og leitast er við að bjóða nemendum upp á hreyfingu alla skóladaga.

Við hvetjum foreldra eindregið til að kynna sér starfið hjá okkur. Kynningarfundur fyrir foreldra barna sem hefja nám í 1. bekk næsta haust verður haldinn fimmtudaginn 4. mars kl. 17:00. Jafnframt gefst foreldrum tækifæri til að kynna sér húsakynni skólans.  Áhugasamir eru einnig hvattir til að kynna sér upplýsingar um skólastarfið á heimasíðu skólans og hægt er að bóka heimsókn á skólatíma með því að senda tölvupóst á netfangið [email protected]

Kynningarfundur vegna innritunar í 4-5 ára deild skólans verður fimmtudaginn 3. mars kl. 18:00.

Við bjóðum nýja nemendur og foreldra hjartanlega velkomna í skólasamfélagið okkar í Flataskóla!  

Ágúst Jakobsson, skólastjóri

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar