Fasteignaskattur í Garðabæ – réttlátt fyrirkomulag?

Eitt af aðaleinkennum Garðabæjar hefur í gegnum tíðina verið festa í fjármálum. Það er lykilatriði að haldið verði áfram á þeirri braut hér í framtíðinni. Eyðum ekki um efni fram, forgangsröðum verkefnum eftir mikilvægi og búum þannig til umhverfi sem gefur okkur möguleika á að halda skuldahlutfalli bæjarins ásættanlegu og það sem mestu máli skiptir; álögum lágum á Garðbæinga.

Fasteignaskattur hækkar

Sjálfstæðisflokkurinn hefur beitt sér fyrir því að lækka fasteignaskattsprósentu á íbúðaeigendur í Garðabæ. Það hefur flokkurinn gert árlega síðustu átta ár og er skatturinn meðal þeirra lægstu á Íslandi, 0,179% af fasteignamati íbúðarhúsnæðis.
Vandinn hefur verið að fasteignamat hækkar töluvert með hverju árinu í Garðabæ. Það hefur það í för með sér að fasteignaskattur sem leggst á íbúa hefur hækkað í krónutölu – þrátt fyrir skattalækkanir Garðabæjar.

Ég kannaði raunverulega stöðu íbúðarhúsnæðis í rótgrónu hverfi í bænum og hvernig hún hafði breyst milli áranna 2021 og 2022. Þar sá ég að krónutöluhækkun á kostnaði heimilisins vegna fasteignaskattsins var 10%. Hækkun á öðrum gjöldum, s.s. lóðarleigu, holræsa-, vatns- og sorpgjaldi, var enn hærri. Þannig var krónutöluhækkunin á öllum fasteignagjöldum þessa húsnæðis 13,2% á milli ára.
Verðbólga var í fyrra 5,1% sem þýðir að raunhækkun á fasteignagjöldum milli ára á þessu tiltekna húsi í Garðabæ er 8,1%.

Erfitt fyrir ungt fólk

Hækkanir af þessu tagi koma niður á ungu fólki sem er að hefja búsetu. Ungt fólk er oft í námi eða nýkomið út á vinnumarkað og hefur því lægri tekjur en þeir sem eldri eru. Síhækkandi fasteignagjöld umfram verðlags- og launahækkanir valda því að erfitt getur verið fyrir ungt fólk að koma sér upp eigin húsnæði og hefja búsetu.

Kemur sér illa fyrir eldra fólk

Ég er einnig hugsi yfir stöðu eldra fólks sem e.t.v. er flutt í þá íbúð sem það hefur hugsað sér að eyða ævikvöldinu í. Hækkun á fasteignamati íbúðarinnar skilar litlu fyrir þau og á meðan krónutöluhækkun er umfram verðlags- og launahækkanir leiðir það líka til skerðingar á ráðstöfunartekjum.

Setjum þrýsting á löggjafann

Fasteignamat og hækkun á því hefur auðvitað mestu áhrifin. Huga þarf sérstaklega að því að lækka álagningarprósentu hjá Garðabæ á móti hækkun fasteignamats, þannig að álagður fasteignaskattur hækki að jafnaði ekki meira en sem nemur hækkun á neysluvísitölu eða launavísitölu.
Mikill meirihluti fólks tekur ekki þátt í kaupum og sölum á fasteignamarkaði og býr í íbúðum sínum til lengri tíma. Samt hefur hækkandi húsnæðisverð umtalsverð áhrif á álögur þeirra, ekki eingöngu gagnvart fasteignaskatti heldur einnig gagnvart ýmsum öðrum greiðslum til ríkisins, sem ákvarðast sömuleiðis af fasteignamati, s.s. ofanflóðasjóðsgjald og nattúruhamfaratrygging.

Eðlilegt er að bæjaryfirvöld beiti sér fyrir því að Alþingi taki til endurskoðunar skattstofn fasteignaskatts, þannig að tryggt verði að árlegur fasteignaskattur á húsnæði sem ekki er á sölumarkaði hækki ekki sjálfkrafa langt umfram almennar verðlags- og launabreytingar.

Garðabær verður að vera hér í forystu sem annars staðar.

Hrannar Bragi Eyjólfsson

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar