Farsælt samstarf Hjallastefnunnar og Garðabæjar

Árið 2024, 23 árum eftir að Hjallastefnan tók við rekstri Ása í Garðabæ eru Hjallastefnuskólar í sveitarfélaginu orðnir fjórir og nemendur vel á fjórða hundraðið, eða 385. Skömmu fyrir aldamótin síðustu gerði Hjallastefnan samning við Hafnarfjarðarbæ um að taka við rekstri leikskólans Hjalla við Hjallabraut, eða árið 1999. Ekki löngu síðar, eða árið 2001, var blað brotið í sögu íslenskra leikskóla þegar Garðabær bauð út rekstur á nýjum leikskóla við Bergása.

Hjallastefnan hefur starfsemi í Garðabæ

Með reynsluna frá Hafnarfirði í farteskinu ákváðu Hjallastefnukonur að taka þátt í útboðinu og var tilboði þeirra tekið. Þær voru einu fagaðilarnir í leikskólastarfi úr hópi margra þátttakenda og byggðu útboðsgögn sín á þeirri þekkingu sem orðið hafði til á leikskólanum Hjalla. Þátttakan í útboðinu var þannig kvennapólitísk aðgerð þar sem að starfsfólk Hjalla trúði því að þau væri síst verr til þess fallin að taka sjálf við keflinu en að starfa í umboði annarra. Hjallastefnan tók við leikskólanum Ásum og innleiðing Hjallastefnunnar gekk vel, foreldrar og börn voru himinlifandi með fjölbreytni í leikskólamálum í sveitarfélaginu.

Horft til yngsta stigs grunnskóla

Samstarf Garðabæjar og Hjallastefnunnar var farsælt og ekki leið á löngu áður en að hugmyndin um að stefnan héldi áfram upp á yngstu stig grunnskóla, voru það sér í lagi foreldrar sem töluðu fyrir þeirri nýbreytni þar sem þau töldu stefnuna henta sínum börnum sérstaklega vel. Hófst þá sameiginleg vegferð sveitarfélagsins og Hjallastefnunnar, leit að heppilegu húsnæði. Umfangsmikil leit tók við en fýsilegt húsnæði fannst ekki í fyrstu atrennum. Eins varð það til þess að flækja mál að engin löggjöf var fyrir hendi um fjármögnun grunnskólastarfs, einu sjálfstæðu grunnskólar landsins á þeim tíma voru í Reykjavík.

Barnaskóli hefur starfsemi árið 2003

Stjórnvöld í Garðabæ tóku þá afstöðu að sama leið og farin hafði verið með leikskólann gæti gengið, það er að segja að grunnskólinn yrði starfræktur í húsnæði á vegum Garðabæjar og sama fjármagni yrði úthlutað til rekstursins eins og til annarra skóla í sveitarfélaginu. Þetta var stórt skref fyrir sjálfstætt starfandi skóla og skólaval barnafjölskyldna og þegar heppilegt húsnæði fannst við Vífilsstaði raungerðist þetta samkomulag, fyrsti Barnaskóli Hjallastefnunnar var settur á laggirnar sumarið 2003.

Fyrst um sinn voru nemendur um 40 en ekki leið á löngu þar til að aðsóknin var orðin meiri og leiða leitað til þess að mæta þeirri eftirspurn sem skólastefnan hafði skapað í Garðabæ. Fulltrúar sveitarfélagsins og Hjallastefnunnar héldu áfram að leita leiða til þess að mæti húsnæðisþurft skólasamfélagsins og Garðabær lagði til tvær færanlegar kennslustofur og Hjallastefnan tvær árið 2007.

Sagan heldur áfram

Eins og von er og vísa meðal barna þá urðu þau eldri og foreldrar barna í Barnaskólanum óskuðu einlæglega eftir því að Hjallastefnan færði sig upp á miðstig grunnskólans og þannig brúa það bil sem myndaðist á milli yngsta stigsins og unglingastigs. Árið 2010 var reist ný bygging á lóðinni við Vífilsstaði undir miðstig. Í anda lýðræðisstefnu Hjallastefnunnar kusu nemendur um nafn á skólanum og varð Vífilsskóli fyrir valinu með 66% kosningu.

Árið 2006 hófst starfsemi ungbarnaleikskólans Ránargrundar, sem síðar varð leikskólinn Litlu Ásar sem nú er staðsettur í einu af gömlu starfsmannabústöðunum sem fylgdi Vífilsstaðaspítala og árið 2017 var settur á laggirnar leikskólinn Hnoðraholt sem einnig stendur á landi við Vífilsstaði.

Þannig hefur myndast fallegt skólasamfélag Hjallastefnuskóla í Garðabæ og í dag, árið 2024 eru nemendur í skólunum fjórum, Ásum, Litlu-Ásum, Hnoðraholti og Barnaskólanum, 390 talsins og starfsfólk Hjallastefnunnar í Garðabæ yfir 100, í ólíkum hlutverkum.

Hjallastefnan hluti af bæjarbragnum

Hjallastefnan og Garðabær hafa átt farsælt samstarf í áranna rás og var stuðningur sveitarfélagsins mikill þegar Barnaskólinn var settur á laggirnar og eins hefur Hjallastefnan hlaupið undir bagga þegar þörf hefur verið á að taka við fleiri börnum á leikskólaaldri. Í öllu samstarfi hafa hagsmunir barnafjölskyldna í Garðabæ verið leiðarljós og áhersla lögð á fjölbreytileika í skólastarfi, skólaval og sérstöðu.

Hin kærleiksmiðaða og skapandi lýðræðisstefna sem Hjallastefnan er hefur þannig verið hluti af skólavali barnafjölskyldna í Garðabæ hátt í aldarfjórðung og segja má með sanni að Hjallastefnan sé orðin hluti af bæjarbrag sveitarfélagsins. Starfsfólk Hjallastefnunnar hlakkar til að halda áfram að sinna mikilvægasta starfi sem hugsast getur, að umvefja börn kærleika og búa þeim veganesti inn í lífið.

Bóas Hallgrímsson, framkvæmdastjóri fræðslu og fagstarfs Hjallastefnunnar
Sturla Þorsteinsson, kennari við Hjallastefnuna

Bóas Hallgrímsson, framkvæmdastjóri fræðslu og fagstarfs Hjallastefnunnar

Sturla Þorsteinsson, kennari við Hjallastefnuna

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar