Erótísk TABÚsýning Aldísar Glóar

Á morgun, laugardag, mun Garðbæingurinn Aldís Gló Gunnardóttir opna myndlistarsýningu í Gróskusalnum á Garðatorgi 1, sem ber vinnuheitið TABÚ, en Aldís er meðlimur í SIM (sambandi íslenskra myndlistarmanna), er menntaður myndlistarkona og hefur málað frá árinu 2006.  
 
Sýningin Aldísar Glóðar á Garðatorgi er tileinkuð konum og þeirra veruleika í annars karllægum heimi. Hún verður með 23 olíuverk á sýningunni sem öll tilheyra þessu þema, þó misgróf séu. Sýningin er erótísk og bönnuð innan 16 ára.

Sýningin Aldísar Glóðar á Garðatorgi er tileinkuð konum og þeirra veruleika í annars karllægum heimi.

Þú ert að opna þína þriðju einkasýningu, af hverju valdir þú þetta þema núna eða hafa allar sýningar þínar verið tileinkaðar konum?  ,,Ég mála allt mögulegt og notast lang oftast við olíu, einkenni mín eru sterkir litir og skýr form. Ég hef yfirleitt alltaf málað fígúratív þar sem mjög auðvelt er að lesa hvað línurnar og formin tákna. Nei það hafa alls ekki allar mínar sýningar verið tileinkaðar konum. Þetta er sú fyrsta.
Ég var lengi búin að mála verk sem að ég vissi að væru mjög seljanleg. Verk sem að pössuðu við sófann og jafnvel fylgdu tískunni og það plagaði mig alltaf aðeins. Ég hafði átt nokkuð mörg samtöl við aðra myndlistarmenn í Grósku um að við værum allt of „boring“ og það vantaði alla ögrun í verkin. Ég var sem sagt farin að þyrsta svolítið í að ganga fram af mér og koma mér út úr kassanum. Það var svo einn daginn sem að ég er að ræða þetta við manninn minn og hann sagði bara: „Aldís, hættu að tala um þetta og gerðu það bara“. Þá rann upp fyrir mér að auðvitað væri það rétt hjá honum.“ 

Þetta er 23 verk sem þú ert með á sýningunni, þetta eru allt erótísk verk, en ólík þó?  „Þau eru öll erótísk en mjög misgróf og sum jafnvel meira rómantísk en erótísk. 

Sýningin mun ganga fram af einhverjum

Verkin þín eru misgróf, áttu von á að einhverjir eigi í erfiðleikum með að skoða þau þótt um list sé að ræða? ,,Já ég á von á því að sýningin gangi fram af einhverjum eins og gengur en það er auðvitað bara allt í lagi og skiljanlegt þar sem að enginn er eins. List er ekki alltaf í stíl við sófann. Sum list er ekki gerð með fagurfræði að leiðarljósi…þessi sýning er svolítið þannig.“ 

En hvernig kom það til að þú ákvaðst að læra myndlist og fara að mála? ,,Eins og svo margir þá missti maðurinn minn vinnuna í hruninu. Hann sótti um sem fjármálastjóri hjá dótturfélagi Samskipa í Noregi og fékk og þar með vorum við fjölskyldan flutt til Noregs. Ég hafði unnið sem menntaskólakennari í FÍV í Vestmannaeyjum og var mjög ánægð með vinnuna en launin voru ekki nóg til að framfleyta fjögurra manna fjölskyldu. Ég upplifði mig aðeins draga stutta stráið þar sem ég var allt í einu orðin heimavinnandi húsmóðir í landi sem ég hafði aldrei komið til og talaði ekki tungumálið sem varð auðvitað til þess að erfitt var að fá vinnu sem kennari. Þegar ég svo þurfti að spyrja sjálfa mig heiðarlega hvað ég vildi gera þá langaði mig ekkert frekar en að mála. Ég man eftir að hafa setið inni í stofu og googlað listaskóla í Álasundi og fann einn. Inntökuskilyrðin voru nokkuð ströng og aðeins 20 teknir inn á ári. Ég lét nú samt vaða og hugsaði með mér að það sakaði ekki að reyna. Nokkru seinna kom svo svarið og ég fékk inn í skólann.“

Og sýning þín á Garðatorgi eru opin til 10. apríl og öll verkin eru til sölu?  ,,Það verður opið frá 14-17 um helgar og 16-19 á virkum dögum. Ég hvet alla til að koma og sjá, sjón er sögu ríkari. Ég stefni á að vera alltaf sjálf með yfirsetu,“ segir Aldís Gló.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar