Sumarjazz í Salnum alla fimmtudaga í júní

Á morgun, fimmtudaginn 2. júní, hefst sumarfagnaður Salarins með fyrstu jazztónleikum sumarsins í fordyri Salarins. Boðið er upp á fimm jazztónleika með okkar bestu jazztónlistarmönnum klukkan fimm á fimmtudögum í júní. Fyrstir til að stíga á svið er tríó sem kallast Hertoginn og er skipað þeim Snorra Sigurðssyni á trompet, Karli Olgeirssyni á píanó og Jóni Rafnssyni á kontrabassa. Tríóið flytur efnisskrá sem er tileinkuð Duke Ellington, eða The Duke, eins og hann er gjarnan nefndur.

„Þetta er fjórða sumarið í röð sem Salurinn og Lista- og menningarráð Kópavogs býður bæjarbúum upp á sumarjazz í fordyri Salarins og óhætt að segja að tónleikarnir hafi slegið í gegn enda hefur verið fullt út úr dyrum á öllum tónleikunum. Þetta er sannkölluð hamingjustund svo ég vitni í nokkra fastagesti okkar,“ segir Aino Freyja forstöðumaður Salarins.

Fyrstir til að stíga á svið er tríó sem kallast Hertoginn og er skipað þeim Snorra Sigurðssyni á trompet, Karli Olgeirssyni
á píanó og Jóni Rafnssyni á kontrabassa.
Andrea Gylfadóttir

Auk Hertogans verða tónleikar með Djäss tríóinu sem gerir nú víðreist um landið sem og erlendis, Skuggatríó Sigurðar Flosasonar sem auk Sigurðar er skipað Einari Scheving trommuleikari og Þóri Baldurssyni hammond-orgel leikara og heiðurslistamanni Kópavogsbæjar. Þeir flytja göróttan kokteil grípandi og skemmtilegrar tónlistar á mörkum jazz og blús. Síðan flytur Tríó Ómars Einarssonar vandaðar útsetningar á þekktum jazzlögum auk frumsaminna laga. Að lokum stígur Dan Cassidy Tríó á svið ásamt Andreu Gylfadóttur og flytur þekkt jazzlög ásamt ýmsum gullmolum úr heimi dægurtónlistar.

Aðgangur á tónleikana er án endurgjalds og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Húsið opnar klukkutíma fyrir tónleika en tónleikarnir hefjast eins og fyrr segir kl. 17. Nánar er hægt að nálgast dagskrána á salurinn.is

Forsíðumynd er af Tríói Ómars Einarssonar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar