Breiðablik tryggði sér bikarmeistaratitilinn í knattspyrnu kvenna sl. föstudag þegar liðið vann afar sannfærandi 4-0 sigur á Þrótti í úrslitaleik Mjólkurbikarins. sem fram fór fyrir framan tæplega þrjú þúsund stuðningsmenn liðanna á Laugardalsvelli. Með sigrinum hefur Breiðablik hampað bikarmeistaratitlinum13 sinnum, oftast allra félaga á Íslandi ásamt Val.
Karítas Tómasdóttir skoraði tvö mörk í leiknum og Tiffany McCarty og Hildur Antonsdóttir eitt mark hvor. Agla María Albertsdóttir lagði upp tvö af mörkunum og Selma Sól Magnúsdóttir eitt.
En hvað segir Vilhjálmur Kári Haraldsson (Villi) þjálfari liðsins. Þú ert væntanlega gríðarlega stoltur og ánægður með stúlkurnar? ,,Já, ég er mjög stoltur af stelpunum sem kláruðu þennan leik með stæl. Það var mikið hungur til staðar enda höfðum við misst af Ís-landsmeistaratitlinum til Vals, baráttan og vinnusemin var upp á 10. Ég skynjaði strax í klefanum fyrir leik að það voru allir klárir í þennan slag,” segir Vilhjálmur.
Varð ekki rólegur fyrr en fjórða markið kom
Sigurinn var sannfærandi, en hvenær var Villi orðinn nokkuð rólegur á bekknum og öruggur um að sigurinn væri Blika? ,,Þegar Hildur Antonsdóttir skorar þriðja markið þá vissi ég að við vorum að fara fagna sigri í þessum leik. Ég var reyndar ekki orðinn rólegur fyrr en fjórða markið kom,” segir hann og brosir.
En hvar var í raun lyklinn að þessum sigri? ,,Við lögðum upp með að við myndum spila okkar leik, á okkar styrkleikum, auðvitað skoðuðum við andstæðinginn en hugsuðum mest um okkur sjálf. Við vissum líka að við værum í góðu formi og ætluðum að keyra á þær og halda uppi tempói til að þreyta þær.”
Þetta var næst síðasti leikurinn sem þú stjórnar með Breiðablik, í bili að minnsta kosti. Þú ert væntanlega ánægður með að landa titli, en sjálfsagt súrsætt að vera hætta? ,,Þetta var virkilega skemmtilegt kvöld, við náðum að skapa góðar minningar fyrir alla Blika. Breiðablik vill vera í fremstu röð bæði karla- og kvenna megin og það var mikilvægt að skila einum titli í hús. Ég var svo sem löngu búinn að ákveða að ég væri að hætta svo þetta hafði svo sem engin áhrif á þá ákvörðun.”
Ég skulda fjölskyldunni minni mikinn tíma
En af hverju ákvaðstu að láta gott heita og segja skilið við þjálfun Breiðabliks? ,,Ég skulda fjölskyldunni minni mikinn tíma eftir að hafa eytt meira en helmingi ævinnar í þjálfun. Það hefur verið erfitt að fara í sumarfrí og eiga stundir með vinum og fjölskyldu því þú ert mjög bundinn yfir æfingum og leikjum. Ég er líka í öðru starfi og ég finn að það er erfitt að tvinna störfin saman.”
Eftir á að hyggja er ég mjög sáttur
Ertu ánægður og sáttur, eftir miklar breytingar á leikmanna-hóp Breiðabliks frá síðasta tímabili, hvernig sumarið og árangurinn var hjá liðinu? ,,Við ætluðum okkur auðvitað sigur í deildinni en eftir á að hyggja er ég mjög sáttur með 2. sæti í deild, bikarmeistaratitil og sæti í riðlakeppni meistaradeildarinnar. Það er einungis 1/3 eftir að því liði sem varð Íslandsmeistari 2020 svo okkur hefur a.m.k. tekist að halda Breiðablik í fremstu röð þrátt fyrir miklar breytingar á leikmannahópnum.”
Stórt ævintýri framundan
Þú hefur þó ekki alveg sagt skilið við liðið, en þú munt stjórna þínum síðasta leik með liðinu annað kvöld þegar það mætir franska stórliðinu PSG í fyrstu umferð Meistara-deildarinnar. Hvernig líst þér á þann leik og þetta verður sjálfsagt mikið ævintýri fyrir stelpurnar að taka þátt í sterkum riðli Meistaradeildarinnar? ,,Þetta er gríðarlega erfitt verkefni enda er PSG eitt besta félagslið heims. Við munum samt sem áður undirbúa okkur vel og gera allt sem við getum til að ná góðum úrslitum. Riðlakeppnin er stórt ævintýri en í Breiðablik er mikil reynsla til staðar eftir að hafa spila við sterk lið á undanförnum árum í Evrópukeppni og þess vegna ætlum að við ekki bara að vera með heldur reyna að ná árangri í þessari keppni.”
Búið að bæta í leikmannahópinn fyrir Meistaradeildina
Og þið styrktuðu leikmannahópinn fyrir leikina í Meistaradeildinni – hvernig kom það til? ,,Já, við misstum lykilmenn undir lok tímabilsins hérna heima, tvær fóru í skóla í Harvard og einn leikmaður sem hafði verið á láni fór aftur til Belgíu. Við vorum fáliðuð undir lokin og þess vegna reyndum við allt til að stækka hópinn og erum komin með flotta leikmenn.”
Hvernig meturðu möguleika ykkar gegn PSG og í raun bara almennt gegn liðunum í þessum riðli? ,,Ég held að það sá alltaf góður möguleiki hér heima. PSG og Real Madrid eru gríðarlega sterk lið og allt þarf að ganga upp gegn þeim. Kharkiv frá Úkraínu er lið sem við teljum okkur eiga góða möguleika gegn.”
Ásmundur Arnarsson mun taka við þjálfun liðsins eftir leikinn í kvöld, en þú ætlar engu að síðu að aðstoða hann í Meistaradeildinni, svo þú færð að sama skapi að upplifa þetta ævintýri? ,,Ég hef sagt að ég sé tilbúinn að aðstoða eins og þarf en það er mikilvægt að nýr þjálfari fá svigrúm til að gera hlutina eins og hann telur best. Við þekkjumst ágætlega og höfum rætt saman um hlutina. Hann verður í aðalhlutverki eftir PSG leikinn en hann getur alltaf leitað til mín um hvað sem er.”
Komið að þjálfun í rúmar aldarfjórðung
En hvað tekur svo við þegar þú hefur sagt skilið við þjálfunina, ertu alveg búinn að segja skilið við þjálfunina eða lokar þú ekkert á að koma til baka síðar? ,,Í rúman aldarfjórðung hef ég komið að þjálfun í nánast öllum flokkum og bæði hjá konum og körlum. Ég er fyrst og fremst þakklátur Breiðablik og FH að hafa fengið tækifæri til að þroska og þróa leikmenn í gegnum þessa skemmtilegu íþrótt sem fótboltinn er. Ég lít þannig á að muni einbeita mér að öðru hlutum næstu árin en ég hef lært það líka að við vitum aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér,” segir þessi frábæri þjálfari að lokum.