Þorvaldur Örlygsson hefur verið ráðinn í starf rekstrarstjóra knattspyrnudeildar Stjörnunnar sem auglýst var á dögunum. Þorvaldur lætur því af störfum sem þjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu en hann kom til félagsins síðastliðið haust og stýrði liðinu í sumar eftir að Rúnar Páll Sigmundsson sagði upp starfi sínu.
„Ég hef notið tímans vel og þó svo að tímabilið hafi gengið upp og ofan þá er Stjarnan öflugt félag með ótrúlega sterkan kjarna starfsmanna og sjálfboðaliða sem hafa búið til umgjörð í kringum fótboltann í Garðabæ sem er eftirsóknarvert umhverfi að starfa í. Það kemur oft best í ljós þegar menn lenda í brekku úr hverju þeir eru gerðir og það var algerlega til fyrirmyndar hvernig félagið hélt á sínum málum núna í sumar og ég veit að sú stefna sem er til staðar er líkleg til afreka enda efniviðurinn nægur og kjarni liðsins öflugur. Ég er mjög spenntur fyrir nýju hlutverki mínu innan félagsins og einstaklega ánægjulegt að hafa orðið fyrir valinu í þetta starf. Ég sé mikil tækifæri innan Stjörnunnar til framtíðar með tilkomu nýs knatthúss í Vetrarmýrinni. Eins þá er félagið með gríðarlega öflugt og barna- og unglingastarf og meistaraflokkur kvenna verið í sterkri uppbyggingu sem verður gaman að koma að. Það er von mín að þekking mín og reynsla geti nýst í nýju starfi til að að styrkja ennfrekar það góða starf sem á sér stað innan félagsins.
Ég veit að það voru margir sem sóttust eftir starfinu þegar það var auglýst og virkilega ánægjulegt að hafa staðið uppi sem sá valkostur sem Stjarnan taldi henta sér best eftir að hafa farið í gegnum stíft ráðningaferli sem ráðningarstofan Intellectra hélt utan um.
Ég vill nota tækifærið og þakka fyrir tímann sem ég átti með meistaraflokki karla og mun nú einhenda mér í það verkefni að styðja við liðið frá annarri átt“ segir Þorvaldur Örlygsson.
„Það er ljóst að sumarið var okkur erfitt fyrir margra hluta sakir sem verða ekki raktar hér en í öllum samskiptum höfum við unnið náið og vel með Þorvaldi og hefur samstarfið gengið vel og verið ánægja með þá hluti sem hafa verið ræktaðir þessa mánuði sem hann hefur stýrt liðinu og því er ánægjulegt að vita til þess að hann mun halda áfram störfum fyrir félagið og vinna að þeirri stefnu sem við höfum mótað okkur til framtíðar. Ég vill nota tækifærið og þakka honum persónulega fyrir hans framlag á erfiðum tímum og nú byggjum við ofan á það og hefjum undirbúning vegna næsta tímabils“ segir Helgi Hrannarr, formaður mfl ráðs.