Skipulagsráð samþykkti ekki byggingu sjö einbýlishúsa á Vatnsendabletti

Skipulagsráð Kópavogs hefur hafnað fyrirspurn RCDP Arkitekta f.h. lóðarhafa um breytta landnotkun á lóðinni að Vatnsendabletti 1B, en í breytingunni felst að landnotkun breytist úr opnu svæði í íbúðarsvæði.
Í fyrirspurninni er gert ráð fyrir að lóðinni verði skipti upp í sjö smærri lóðir og heimilt verði að reisa eina í búð að hámarki 325 m² á hverri lóð. Aðkoma að lóðunum verði sameiginleg og frá Kríunesvegi og Vatnsendabletti.

Drög að skipulagi að breyttri landnotkun á lóðinni Vatnsendabletti 1b með sjö einbýlishúsum.

Eins og áður segir þá leit skipulagsráð neikvætt á framlagða fyrirspurn og hafnaði henni með sex atkvæðum gegn atkvæði Kristins Dags Gissurarsonar, en fyrirhuguð breyting á landnotkun fellur ekki að markmiðum Aðalskipulags Kópavogs 2019-2040 fyrir svæðið og ákvæðum hverfisverndar Elliðavatns HV-14.

50 metra breitt helgunarsvæði Elliðavatns og þar eru ekki heimilaðar nýjar lóðir fyrir íbúðarhús

Umsögn skipulagsdeildar vegna ákvörðunarinnar segir að í aðalskipulagi Kópavogs sé gert ráð fyrir að Vatnsendablettur 1b sé opið grænt svæði í nálægð við Elliðavatn. Hluti lóðarinnar liggur innan helgunarsvæði hverfisverndar Elliðavatns þar sem ekki eru heimilaðar nýjar lóðir fyrir íbúðarhús. „Meðfram Elliðavatni er að jafnaði 50 metra breitt belti sem er eins konar helgunarsvæði vatnsins. Þar eru ekki heimilaðar nýjar lóðir fyrir íbúðarhús. Landnotkun á helgunarsvæðinu einkennist af því að það er að mestu leyti óbyggt svæði, en að hluta til landbúnaðarland Vatnsenda, trjárækt og útivistarsvæði Sjálfsbjargar.“

Það er stefna í aðalskipulagi Kópavogs og heimsmarkmiðum sameinuðu þjóðanna að viðhalda opnum svæðum og gera aðgengi betra fyrir almenning að grænum svæðum allmennt í Kópavogi. Strönd Elliðavatns býður upp á mikla útivistamöguleika.

Meðfram Elliðavatni er að jafnaði 50 metra breitt belti sem er eins konar helgunarsvæði vatnsins

Stefnt skal að því að opin svæði verði ekki skert

Í markmiðum aðalskipulagsins kemur fram að stefnt skal að því að opin svæði verði ekki skert enda bjóða þau upp á umhverfisleg gæði. Aðalskipulag Kópavogs gerir ennfremur ráð fyrir að uppbygging íbúða á skipulagstímabilinu verði að mestu á samgöngumiðuðum þróunarsvæðum. Þéttleiki byggðar verði mestur næst miðju en næst jaðrinum verði byggðin strjálli og tengsl við ósnortna náttúru meiri.

Breytt landnotkun á þessu svæði samræmist ekki skilgreindri landnotkun í Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040, OP-5.19 og ákvæðum hverfisverndarsvæðis Elliðavatns HV-1.

Útfrá ofannefndu er það mat skipulagsdeildar að ekki eigi að leyfa breyta landnotkun á lóðinni heldur eigi lóðin að vera áfram grænt opið svæði.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar