Skapandi sumarstörf í Kópavogi vilja vekja athygli á lista- og uppskeruhátíð sem haldin verður í Molanum í Kópavogi fimmtudaginn 21. júlí 2022. Dagskráin stendur frá kl. 17-20 og býðst gestum að sjá afrakstur tveggja mánaða vinnu hjá listafólki sumarsins.
Starfið veitir ungu listafólki á aldrinum 18-25 ára tækifæri til að vinna að eigin listsköpun og hefur það reynst mikilvægur stökkpallur fyrir margt af efnilegasta listafólki landsins. Í sumar voru starfrækt 17 spennandi og ólík verkefni og stóðu að baki þeim 28 listamenn úr mismunandi miðlum.
Á dagskránni má sjá stuttmyndagerð og myndlistarsýningar, hlusta á hverfisskiptan söng þrasta, skoða járn unnið úr mýrarrauða, tónlistargjörninga, vegglist, bókverk, einleik í útilekhúsi og margt fleira. Verkin í ár eru umsvifamikil og metnaðargjörn og því stórskemmtileg hátíð í vændum.
Á lokahátíðinni mun listafólkið deila afrakstri sumarsins fyrir gesti og gangandi, áhugasama og forvitna sem langar að kynna sér það athyglisverðasta í íslensku grasrótinni. Þetta er einstakur viðburður sem teygir sig um miðbæ Kópavogs, en sýningar verða bæði í Molanum og á Náttúrufræðistofu hinum megin götunnar, hinum ýmsu undirgöngum í göngufæri miðbæjarins en teygir anga sína einnig alla leið upp í útileikhúsið í Grandahvarfi á Vatnsenda.
Verið hjartanlega velkomin á þessa kraumandi hátíð, við tökum vel á móti ykkur í Molanum að Hábraut 2 í Kópavogi.