Man hvað þetta var alltaf skemmtilegt

Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði Breiðabliks er uppalin í félaginu og tók þátt í fjölmörgum Símamótum, en hún hóf að leika með meistaraflokki þegar hún var 16 ára.

Kópavogspósturinn spurði Ástu Eir hvort hún mundi vel eftir þátttöku sinni á Símamótinu? ,,Já, ég man vel eftir mótunum og hvað þetta var alltaf skemmtilegt, en á sama tíma mikil alvara í gangi, við vildum alltaf vinna allt,” segir hún brosandi. ,,Það gekk ekki alltaf upp en það sem stóð uppúr eftir mótin var alltaf gleðin og stemmingin með stelpunum.”

Eru einhverjar sem voru með þér á Símamótinu enn að spila í dag? ,,Já, við erum þó ekki margar eftir úr mínum árgangi. Það ber helst að nefna Þórdísi Hrönn. Við höfum bæði spilað saman í Breiðablik og gegn hvor annarri.”

Þegar þú lítur til baka hvað var þá helst sem Símamótið skilur eftir sig? ,,Það var bara hamingjan í kringum allt mótið. Það var mjög mikilvægt á þessum tíma að fá flottar fléttur í hárið fyrir mótið. Svo bara leikirnir, áhorfendurnir og að spila með stelpunum. þetta var sjúklega gaman.”

En árin líða og þú ert fyrirliði Breiðabliks í dag. Hvernig metur þú sumarið hjá ykkur fram að þessum tímapunkti? ,,Heilt yfir er ég bara ánægð með sumarið. Frammistaðan hefur verið mjög góð, þrátt fyrir að úrslitin hafa ekki alltaf fallið með okkur í fyrstu leikjunum. En mér finnst við vera á góðum stað núna og held við munum gera enn betur þegar líður á sumarið.”

Og þið ætlið að berjast um Íslandsmeistaratitilinn þegar Besta deildin hefst á ný eftir EM kvenna? ,,Að sjálfsögðu. Þetta er spennandi deild og allir virðast geta unnið alla. 4 stig er ekki mikið forskot og það er nóg eftir af leikjum. Við förum í alla leiki til að vinna þá og svo sjáum við bara hvað taflan segir í lok tímabilisins.“

Og aðeins að EM kvenna. Þú hefur alls leikið 11 A-landsliðsleiki og varst viðriðin lokahópinn. Nú er EM að hefjast 10. júlí. Hvernig heldurðu að íslensku stelpunum muni vegna? ,,Þetta er mjög erfiður riðill sem Ísland er í á EM og allir leikirnir verða hörkuleikir. En með góðu skipulagi og alvöru baráttu held ég að stelpurnar muni standa sig mjög vel og ná í góð úrslit.”

En aftur að Símamótinu. Ætlar þú að mæta og fylgjast með mótinu og þú ert jafnvel í einhverjum sjálfsboðaliðastörfum? ,,Já ég læt mig ekki vanta, og við allar stelpurnar í meistaraflokknum verðum á svæðinu. Bæði að dæma, veita verðlaun og styðja stelpurnar áfram.”

Viltu gefa þátttakendum einhver holl og góð ráð fyrir Símamótið og fyrir framtíðina í fótbolta enda allt ungar og efnilegar stelpur að taka þátt? ,,Fyrst og fremst hafa gaman. Fótbolti á ekki bara að vera full alvara, þú þarft að njóta þess að spila og líða vel inni á vellinum. Ef þér líður vel þá spilaru vel. Svo bara bera virðingu fyrir andstæðingnum og gera alltaf þitt besta,” segir Ásta að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar