Ljósin kveikt – fyrir suma?

Í nýbirtum meirihlutasáttmála Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hér í Kópavogi lofar verðandi formaður bæjarráðs bættri lýsingu á Kópavogsvöll. Lýsingu sem stenst alþjóðlegar kröfur, en nýleg ljós vallarins standast ekki þær kröfur.

Hvort hér er um að ræða mistök við upphaflegu kaupin eða hvort kröfur hafa breyst skal ósagt látið hér.

Þessari yfirlýsingu í sáttmálanum ber að fagna í ljósi ummæla meirihlutaflokkanna í kosningabaráttunni um að þeir yrðu fulltrúar allra bæjarbúa og bæru hagsmuni þeirra fyrir brjósti.
Það ætti a.m.k. að vera ljóst verðandi formanni bæjarráðs, sem verið hefur í forystusveit Breiðabliks, það aðstöðuleysi sem frjálsíþróttadeild félagsins býr við og hefði að ósekju mátt minnast á það í sáttmálanum. Því verður vart trúað á nýjan meirihluta að til greina komi að mismuna íþróttagreinum svo freklega sem nú er staðreynd.

Eins og öllum er kunnugt var með tilkomu gervigrass á Kópavogsvöll útilokað að halda meiriháttar frjálsíþróttamót í Kópavogi, m.a. Meistaramót og önnur stærri mót sem FRÍ úthlutar til félaga. Þar af leiðandi verður deildin af umtalsverðum tekjum af mótahaldi.

Frjálsíþróttadeild Breiðabliks er ein af öflugustu frjálsíþróttadeildum landsins og hefur getið sér sérstaklega gott orð fyrir framkvæmd móta, á Kópavogsvelli. Ætla má að þekking dómara og annarra starfsmanna á mótum fari forgörðum af þessum sökum.

Frjálsíþróttadeildin hlýtur því að líta björtum augum til framtíðar og trúir ekki að nýr meirihluti í bæjarstjórn láti sér til til hugar koma að mismuna íþróttagreinum, þar er nauðsynlegt að allir sitji við sama borð. Það er einnig trú frjálsíþróttafólks í Kópavogi að það hafi einungis verið athugunarleysi að aðstaða frjálsíþrótta skyldi ekki rata í nýjan meirihlutasáttmála.

Um leið og fagnað er þeirri ákvörðun að knattspyrnudeild geti leikið sína leiki án vandkvæða er það augljós krafa að frjálsíþróttadeildinni verði fært að halda þau mót sem bjóðast. Vonandi stendur nýkjörin bæjarstjórn við fögur fyrirheit um að vinna að hag allra bæjarbúa og mismuni þeim í engu.
Það er verðugt verkefni nýrrar bæjarstjórnar að búa öllum íþróttaiðkendum aðstöðu til æfinga og keppni, en slíku er því miður ekki til að dreifa eins og staðan er nú.

Frjálsíþróttadeild Breiðabliks væntir því þess að nýkjörin bæjarstjórn hafi fljótlega samband og kynni framtíðaráform um aðstöðu frjálsíþrótta í Kópavogi.

Magnús Jakobsson og Eiríkur Mörk Valsson
Fyrrverandi formenn Frjálsíþróttadeildar Breiðabliks

Mynd frá Norðurlandamóti í frjálsum á Kópavogsvelli 2014

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar