Leggjum línurnar fær styrk – aftur!

Verkefni Náttúrufræðistofu Kópavogs „Leggjum línurnar: menntaverkefni á vef“ hefur hlotið styrk úr Loftslagssjóði Rannís. Verkefnið er framhald verkefnisins „Leggjum línurnar“ sem keyrt var síðasta vetur og þykir, þrátt fyrir margvíslegar áskoranir, hafa tekist afar vel. Nú er ætlunin að þróa verkefnið áfram og gera aðgengilegt gegn um vefinn.

Alls bárust 85 gildar umsóknir og voru 12 styrktar. Verkefnið „Leggjum línurnar: menntaverkefni á vef“  er í flokknum Kynningar- og fræðlsuverkefni. Alls bárust 44 umsóknir í þennan flokk og hlutu sex þeirra styrk og er Náttúrufræðistofa Kópavogs að sjálfsögu himinlifandi með viðurkenninguna.
Loftslagsverkefnið Leggjum línurnar hlaut upphaflega styrk úr Loftslagssjóði snemmárs 2021 og á haustönn 2021 tóku um 400 tíundu bekkingar í sjö grunnskólum í Kópavogi þátt í því undir stjórn kennara sinna, verkefnastjóra Náttúrufræðistofu og Sævars Helga Bragasonar vísindamiðlara.

Nokkrum litlum veðurstöðvum var komið fyrir á ólíkum stöðum í Kópavogi og nemendum bauðst að gera raunmælingar á veðri, afla áþreifanlegra gagna og setja í samhengi við umhverfi sitt. Í kjölfarið útvíkkuðu þeir rannsóknarsvið sitt yfir á heimsvísu og unnu sk. loftslaglínur (e. climate stripes) fyrir mismunandi lönd í heiminum. Þá rýndu þeir gögn um ýmsa félags-, efnahags- og umhverfislega þætti í rannsóknarlöndum sínum og tengdu heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Meðal leiðarljósa verkefnisins var greinargóð fræðsla um loftslagsmál og fjölbreytt verkefnavinna byggð á raunverulegum gögnum. Þar að auki var leitast við að skapa tækifæri til valdeflandi samtals, ígrundunar og lausnaleitar hjá nemendahópunum, meðal annars með umræðufundum undir stjórn Sævars Helga.

Það verður spennandi að sjá framhaldið á þessu metnaðarfulla verkefni Náttúrufræðistofu Kópavogs.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar