Sumarið er tíminn eða hvað?

Flestir foreldrar fá 4-5 vikna sumarfrí, að því gefnu að ekki sé búið að taka út daga til þess að vera heima með börnin á starfsdögum, í vetrarfríi, jólafríi eða páskafríi. Grunnskólabörn eru í sumarfríi í u.þ.b. 11 vikur, frá byrjun júní til loka ágúst. Það sjá allir að dæmið gengur ekki upp. 

Þrátt fyrir fyrir langan vetur þá er sumarið handan við hornið. Foreldrar eru farnir að gera plön fyrir sumarið og þá er ég ekki að tala um sumarfríið sem fjölskyldan tekur saman, heldur vikurnar sem börnin eru í fríi frá skólanum en foreldrarnir þurfa að mæta til vinnu. Foreldrar setjast því fyrir framan tölvurnar, opna excel og byrja að plana. Íþróttanámskeið, hestanámskeið, siglinganámskeið, sumarbúðir, dansnámskeið, tækninámskeið, úrvalið virðist endalaust. En ekki láta blekkjast, þessi námskeið fyllast fljótt þar sem foreldrar keppast við að koma börnum sínum að. Við sem höfum tekið þátt í þessum leik vitum að námskeið sem eru allan daginn henta best, því þá þarf ekki að eyða hádeginu í að sækja á einn stað og skutla á annann og borða í bílnum á leiðinni. Fyrir utan þann tíma sem fer í skipulag ásamt því að skutla og sækja þá getur kostnaðurinn við þessi námskeið verið hár og getur auðveldlega endað í hundruðum þúsunda fyrir börn sem þurfa að sækja námskeið í 5-6 vikur á sumri. 

Sumarfrístund í skólum

Sagan endurtekur sig á hverju sumri og hefði maður haldið að Garðabær myndi vinna markvisst að því að koma með lausn á þessu vandamáli. Sú tillaga hefur komið fram frá foreldrum reglulega að bjóða upp á sumarfrístund í skólum, lausn sem myndi henta bæði þeim og börnunum.  En þá heyrast raddir um að bærinn eigi ekki að vera í samkeppni við íþróttafélögin né aðra aðila sem halda úti námskeiðum fyrir börn á sumrin. Þessar raddir virðast hugsa í vandamálum en ekki lausnum. 

Hvar er valfrelsið?

Ættu foreldrar ekki að fá að velja hvað hentar þeim og þeirra barni best? Það eru ekki öll börn sem vilja eða geta stundað íþróttir og henta því námskeið á vegum íþróttafélaga þeim ekki. Önnur eiga erfitt með breytingar á umhverfi og myndi því sumarfrístund í þeirra skóla vera góður kostur. Við í Viðreisn viljum hlusta á þarfir foreldra og barna og bregðast við þeim. Lausnin á þessu árlega vandamáli er til, það þarf bara að framkvæma hana. 

Ásta Sigríður Guðjónsdóttir
Verkefnastjóri stafrænna miðla og skipar 5. sæti á lista Viðreisnar í Garðabæ. 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar