Ný menntastefna Garðabæjar byggir á farsæld og framsækni

Skólastefna Garðabæjar hefur nú verið endurskoðuð og var það gert í víðtæku samráði við börn í leik-, grunn- og tónlistarskólum, starfsfólk, kjörna fulltrúa, forráðamenn og bæjarbúa. Einnig voru kallaðir til sérfræðingar í stefnumótun og skólamálum ásamt því að stefnan var kynnt í nefndum og ráðum sveitarfélagsins. Stefnan ber nú heitið Menntastefna Garðabæjar 2022 – 2030.

Kristjana

Lærdómssamfélag í fremstu röð

Yfirskrift stefnunnar er farsæld og framsækni. Skólasamfélagið í Garðabæ byggir á þeirri hugmyndafræði að farsæld sé grundvöllur framsækni. Áhersla er lögð á heilbrigða sjálfsmynd, jákvæða hugsun og farsæl samskipti meðal barna og ungmenna. Börn fái tækifæri til sjálfsþekkingar og sjálfstæðis svo þau fái notið sín sem einstaklingar. Garðabær vill byggja upp lærdómssamfélag í fremstu röð, þar sem framsækni og þróun, vellíðan, þroski, hæfni og árangur nemenda er leiðarljósið. Boðið verði upp á fjölbreytta þjónustu við fjölskyldur frá fæðingarorlofi og þar til skólaskyldu lýkur. Stefnunni er svo fylgt eftir í aðgerðar- og starfsáætlunum skólanna, með gátlista og mælaborði sem mælir lykilþætti.

Eiríkur

Samstarf

Ein af megin áherslum stefnunnar er öflugt samstarf. Samstarf skólanna í bænum, samstarfi við þjónustuaðila ungmenna í bænum svo sem tómstunda- og félagasamtök. Slíkt samstarf verði unnið út frá hagsmunum barnsins og stuðli að samfellu í námi barna og ungmenna. Lögð verði áhersla á samstarf við foreldra og foreldraráð skólanna. Þá er mikilvæg að komið verði til móts við margbreytilegar þarfir nemenda með ólíkum áherslum í starfi.

Tenging við lög, stefnur og áherslur

Stefnan tekur mið af þeim fjölmörgu lagabálkum og stefnum sem gilda um og taka til skólastarfs og tengdrar þjónustu eins og nýrrar menntasefnu stjórnvalda, aðalnámsskrám grunn- og leikskóla og verkefnum sem unnið er að og tengjast menntastefnu enda er skólastarf barna að 16 ára aldri á verksviði sveitarfélaga. Ný menntastefna Garðabæjar tekur mið af Heilsueflandi samfélagi sem Garðabær er aðili að þar sem unnið er að því að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Stefnan tekur jafnframt mið af innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í alla stjórnsýslu og starfsemi í gegnum verkefnið Barnvæn sveitarfélög. Unnið verði í takt við áhersluþætti Barnasáttmálans um lýðræði og réttindi barna. Áhersla verður lögð á lýðræðislegt samstarf, sjálfstæða og gagnrýna hugsun. Þá er leitast við að láta alla stefnumótun sveitarfélagsins taka mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Markmið stefnunnar eru samofin og samverkandi en mikil tenging er við menntastefnu stjórnvalda, þá sérstaklega markmið um menntun fyrir alla, markmið um heilsu og vellíðan.

Snemmbær stuðningur og mat

Stöðugt og markvisst verður unnið að mati á námi barna og á skólastarfi allra skóla í Garðabæ. Sérstök áhersla verður lögð á heildstæða skólaþjónustu og snemmbæran stuðning við börn. Í stefnunni eru tíunduð yfirmarkmið skólastarfs í Garðabæ. Hlutverk hvers skóla og hluti af sjálfstæði hans er að móta aðgerðaráætlun á grunni skólastefnunnar og setja þar fram undirmarkmið og þær leiðir sem farnar verða að markmiðum stefnunnar. Árlegar starfsáætlanir skólanna byggja á þeirri aðgerðaráætlun. Áætlanirnar verða lagðar fyrir viðkomandi skólanefnd, foreldraráð og skólaráð og birtar á heimasíðum skólanna.

Menntastefnu Garðabæjar er ætlað að leggja grunn að farsælu og framsæknu skólastarfi sem einkennist af jákvæðum skólabrag og veitir öllum börnum menntun og færni til mæta þeim áskorunum sem felast í hröðum og stöðugum samfélags- og tæknibreytingum 21. aldarinnar.

Sigríður Hulda Jónsdóttir, formaður skólanefndar
Kristjana Sigursteinsdóttir, formaður leikskólanefndar
Eiríkur Þorbjörnsson, formaður skólanefndar Tónlistarskólans

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar