Mæðrastyrksnefnd Kópavogs hefur starfað samfellt frá árinu 1968. Hún liðsinnir þeim íbúum bæjarins sem ekki ná endum saman og lætur þeim í té fatnað, mat og úttektarkort í matvöruverslanir. Fyrir jólin eru útbúnar jólagjafir fyrir börnin og sérstakur jólamatarstuðningur er í boði. Mikið er sótt til nefndarinnar á þessum árstíma og má gera ráð fyrir að í það minnsta 500 manns fái aðstoð í einhverju formi fyrir þessi jól. Eða hvað? Húsnæði
Mæðrastyrksnefndar í kjallara Fannborgar 5 sem er í eigu Kópavogs hefur drabbast niður s.l. ár þar sem illa hefur gengið að halda í við uppsafnaða þörf á viðhaldi bygginga í eigu bæjarins. Í vor varð þar mikill leki úr stofnlögn hússins sem ekki var sinnt þrátt fyrir ítrekanir. Nú er svo komið að ekki er íveruhæft í húsnæðinu vegna ólofts. Fyrir rúmum mánuði fékk ég vitneskju um málið og fékk erindið tekið inn í bæjarráð þann 28. september s.l. Þar benti ég á að ef ekki yrði brugðist við yrði engin jólaúthlutun. Fleiri lögðust á vagninn og sem betur fer var hlustað í þetta sinn og farið að leita eftir húsnæði til að bjarga jólum hundruða kópavogsbúa. Nú á elleftu stundu hefur verið staðfest að jólaúthlutun verður í kjallara Digraneskirkju svo nú þurfa hendur að standa fram úr ermum til að ná að undirbúa hana. Þetta er þó bara tímabundið húsnæði fyrir jólaúthlutun og áfram þarf að hamra á að klára málið og finna framtíðarhúsnæði því Mæðrastyrksnefnd sinnir gríðarlega mikilvægu samfélagslegu verkefni sem við þurfum að styðja við.
Við sem eigum ríflega til hnífs og skeiðar getum lagt okkar að mörkum á ýmsan hátt. Við getum tekið til hendinni og hjálpað til við úthlutun en það sem er meira vert, við getum orðið bakhjarlar Mæðrastyrksnefndar Kópavogs.
Bergljót Kristinsdóttir
Oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi
Með því að leggja fasta upphæð að eigin vali mánaðarlega inn á reikning þeirra gerum mest gagn. Reikningurinn er 536-05-403774 Kt. 500197-2349. Skoðið vef nefndarinnar www.maedro.is og kynnið ykkur málið.