Leikskóladeild Sjálandsskóla býður foreldrum og leikskólabörnum á opið hús í dag, fimmtudaginn 7. mars frá kl.16:30-17:30
Miklar breytingar eiga sér stað þegar barn fer úr leikskóla og yfir í grunnskóla. Rannsóknir hafa sýnt að börn aðlagast grunnskólanum fyrr ef þau þekkja aðstöðu og skólaumhverfið, jafnvel enn betur ef þau eiga vini í grunnskólanum. Leikskóladeild Sjálandsskóla vinnur eftir þessari hugmyndafræði.
Starfið á leikskóladeildinni samtvinnast markvisst við grunnskólann og taka börnin virkan þátt í starfi grunnskólans.
Deildin tók til starfa haustið 2023 og starfið á leikskóladeildinni samtvinnast markvisst við grunnskólann og taka börnin virkan þátt í starfi grunnskólans.
Strax í upphafi var ákveðið að leggja áherslu á eftirfarandi gildi: ábyrgð, framsýni, virðingu, samvinnu og jafnvægi. Unnið er mikið eftir verkefnahefti Vöndu Sigurgeirsdóttur Allir vinir sem er forvarnarverkefni gegn einelti.
„Við erum með ,,Lubbastundir“ einu sinni í viku , stærðfræðiverkefni, markvissa málörvun, jóga og vinastundir. Við höfum einnig verið svo heppin að fá að taka þátt í útinámi með Sjálandsskóla sem hefur vakið mikla lukku meðal barnanna. Við erum einnig dugleg að fara á söfn og í leikhús og með hækkandi sól langar okkur vera enn duglegri að fara í lengri vettvangsferðir með börnin,“ segir Elín Ósk Þorsteinsdóttir leikskólastjóri.
Foreldrar, forráðafólk og leikskólabörn eru velkomin á opna húsið í Sjálandsskóla á fimmtudag.