GKG opnar vellina 27. maí, en þó með takmörkunum

Vallarstjóri GKG hefur ákveðið að opna fyrir félagsmenn á Mýrina og neðri hluta Leirdalsvallar (holur 1-3 og 13 – 18) laugardaginn 27. ágúst segir í tilkynningu sem GKG var að senda á félagsmenn rétt í þessu.

,,Vallarstarfsmenn eru ekki búnir að sitja auðum höndum. Þeir eru í þessum skrifuðu orðum að sá í þriðja sinn í allar flatir og teiga. Kuldinn sem hefur einkennt íslenska veðurfarið undanfarið orsakar það að fræ spíra seint en um leið og ylur kemur í loftið mun iðagrænn nýgræðlingurinn líta dagsins ljós. Til að verja þær flatir sem verst urðu úti þá munum við spila inn á bráðabirgðaflatir á holum 15 og 18 á Leirdalsvelli og áttundu holu á Mýrinni,“ segir í tilkynningunni.

Til að gefa vellinum tækifæri til að ná sér betur gilda eftirfarandi reglur:

  • Vellirnir eru eingöngu opnir fyrir félagsmenn til að byrja með
  • Öllum fyrirtækjamótum er frestað til 15. júní
  • Það er ekki heimilt að nota golfbíla þar til Vallarstjóri gefur leyfi fyrir því. Þeir aðilar sem þurfa á golfbílum að halda geta sótt um undanþágu ([email protected]) og gildir þá 90 gráðu reglan, þ.e. keyrt er að boltanum á stíg þar til hann er við hlið bílsins og þá er keyrt út á braut. Ekki má keyra inn á par þrjú holur

Varðandi framhaldið þá vonast vallarstjóri til þess að bæta við holum 4, 5 og 12 á næstu dögum. ,,Það fer þó eftir því hvort við fáum meiri lofthita í spánna. Við munum halda ykkur vel upplýstum á fésbókarsíðu klúbbsins. Nú eru mótaraðirnar okkar; Holukeppni GKG, Mánudagsmótaröðin og Liðakeppnin að byrja. Í ljósi stöðunnar þarf hugsanlega að gera einhverjar breytingar á þeim. Við munum funda með mótstjórum mótaraðanna og kynna fyrir ykkur í lok viku fyrirkomulag þeirra.,“ segir í tilkynningunni.

Fyrstu vikurnar verða erfiðar fyrir völlinn

,,Í ljósi þess að fyrstu vikurnar verða erfiðar fyrir völlinn og gróandann á viðkvæmum svæðum þá bendum við félagsmönnum á að gæta vel að viðgerðum á bolta- og kylfuförum. Góð umgengni um völlum er lykilþáttur í að við fáum völlinn sem fyrst í það ástand sem við viljum hafa hann í. Við höfum alla trú á því að sumarið verði okkur farsælt, gott veður með fullt af góðu golfi og umfram allt frábærum samverustundum okkar GKG-inga út á velli sem og hjá þeim í Mulligan,“ segir í lok tilkynningarinnar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar