Útsvarið óbreytt í Garðabæ 2023 – Viðreisn og Garðabæjarlistinn telja eðlilegt að hækka það

Á síðasta fundi bæjarstjórnar lagði Almar Guðmundsson, bæjarstjóri það til að álagningarhlutfall útsvars verði 13,7% á tekjur bæjarbúa fyrir árið 2023, sem er sama útsvarsprósenta og var í Garðabæ í ár, en útsvarið er veigamesti tekjustofn sveitarfélaga. Það er dregið af launum launþega ásamt tekjuskatti ríkisins.

Skattaparadísin Garðabær

Útsvarsprósentan getur verið mismunandi frá einu sveitarfélagi til annars. Samkvæmt tekjustofnalögum getur útsvarsprósentan hæst verið 14,52% en lægst 12,44%, en útsvarsprósentan í dag er lægst í Garðabæ samanborið við önnur sveitarfélög á höfuð- borgarsvæðinu. Reykjavík er með 14,52% prósentu, Hafnarfjörður og Kópavogu eru með 14,48% prósentu og Seltjarnarnes með 14,09 prósentu. Garðabær var því áfram helsta skattaparadísin á höfuðborgarsvæðinu fyrir árið í ár og það stefnir einnig í það fyrir næsta ár, árið 2023, en sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru flest að vinna í sínum fjárhagsáætlunum og ákveða hver útsvarsprósentan verður.

Ekki réttlætanlegt að halda útsvarsprósentu óbreyttri

Það eru þó ekki allir bæjarfulltrúar á eitt sáttir við óbreytt álagningarhlutfall útsvars í Garðabæ fyrir árið 2023 og Sara Dögg Svanhildardóttir lagði fram svohljóðandi bókun á fundi bæjarstjórnar. „Við í Viðreisn teljum ekki réttlætanlegt að halda útsvarsprósentu óbreyttri á sama tíma og lögbundin þjónusta eykst og allar aðrar álögur sveitarfélagsins hækka umtalsvert.
Hækkun þjónustugjalda bitnar fyrst og fremst á barnafjölskyldum. Barnafjölskyldur bera nú þegar þyngri byrðar en í öðrum sveitarfélögum og fasteignaskattar hækka umtalsvert vegna hækkunar á fasteignamati. Á sama tíma stefnir í að halli verði á rekstri bæjarsjóðs og hann ósjálfbær, sem er staða sem þarf að bregðast við. Viðreisn talar fyrir ábyrgum og sjálfbærum rekstri með lágum álögum, það er mikilvægt hagsmunamál almennings. Það stefnir í ósjálfbæran rekstur hjá sveitarfélaginu sem kallar á lántöku, en kostnaður við vexti og lánakostnað hjá bæjarsjóði hafa vaxið á undanförnum árum og heldur áfram að vaxa í verðbólgu og háum vöxtum íslenskrar krónu.“

Eðlilegt að nota útsvarið í meira mæli

Þá tók Þorbjörg Þorvaldsdóttir til máls og lagði fram svohljóðandi bókun. „Garðabæjarlistinn minnir á að útsvar er sá tekjustofn sveitarfélaga sem leggst hlutfallslega jafnt á íbúa bæjarins og við teljum eðlilegt að nota hann í meira mæli en nú er gert til þess að jafna stöðu fólks. Við sitjum því hjá.“

Tillaga Almars um óbreytt álagningarhlutfall var samþykkt af öllum fulltrúum Sjálfstæðisflokksins og bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins. Bæjarfulltrúar Viðreisnar og Garðabæjarlistans sátu hjá við atkvæðagreiðslu.

Þess má geta að Ríkið setur lög um hámarksprósentu hverju sinni. Ein skýring þess að sveitarfélög hafa fengið heimild til að innheimta hærra útsvar en áður er tilfærsla verkefna, svo sem þegar málefni fatlaðra fluttust frá ríki til sveitarfélaga.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar