Aukið álag í leikskólunum og starfsumhverfið afar krefjandi eftir styttingu vinnuvikunnar

Á síðasta fundi leikskólanefndar Kópavogs kynntu þær Anna Birna Snæbjörnsdóttir, sviðsstjóri menntasviðs, og Sigurlaug Bjarnadóttir, deildarstjóri leikskóladeildar tillögu að stofnun starfshóps um skipulag og starfsumhverfi leikskóla Kópavogsbæjar.

Í tillögunni kemur fram að síðastliðin tvö ár hafa orðið miklar breytingar á starfsumhverfi leikskóla. ,,Með nýjum kjarasamningum, sem samþykktir voru árið 2020, var annarsvegar ákvæði um verulega aukningu undirbúningstíma leikskólakennara og hinsvegar um styttingu vinnuvikunnar. Þessar breytingar hafa haft í för með sér mjög aukið álag í leikskólunum og gert starfsumhverfið afar krefjandi, sem m.a. hefur haft þau áhrif að veikindatíðni hefur aukist, erfitt hefur reynst að ráða nýtt fólk til starfa og ekki síst viðhalda starfsfólki. Nauðsynlegt er að bregðast við þessari þróun til að bæta starfsumhverfi, stöðugleika og öryggi barna og starfsfólks.

Lagt er til að stofnað verði til starfshóps skv. erindisbréfi til greiningar og endurskipulagningar á starfsumhverfi leikskóla. Starfshópurinn verði skipaður 11 fulltrúum og vinni í nánu samstarfi við starfsfólk leikskóla, faglærða og ófaglærða, leikskólastjórnendur, fulltrúa foreldra og aðra hagaðila í umhverfi leikskóla.
Markmið starfshóps er að leggja fram tillögur að breytingum á skipulagi leikskólastarfs í Kópavogi sem leitt geta til framtíðarumbóta og stöðugleika í starfsumhverfi barna og starfsfólks leikskóla.

Megin hlutverk starfshóps, sem nánar yrði útfært í erindisbréfi:

Greina núverandi stöðu leikskólastarfs m.t.t. gæða faglegs starfs og starfsumhverfis barna og stafsfólks.

Meta mögulegar leiðir til breytinga á skipulagi leikskólastarfs og umbóta í starfsumhverfi leikskóla.

Lagt er til að starfshópurinn verði skipaður eftirfarandi:

• Fjórir fulltrúar leikskólastjórnenda
• Formaður leikskólanefndar
• Fulltrúi meirihluta í Bæjarstjórn
• Fulltrúi minnihluta í Bæjarstjórn • Formaður Félags leikskólakennara
• Formaður Félags stjórnenda í leikskólum
• Deildarstjóri leikskóladeildar
• Sviðsstjóri menntasviðs

Alls eru fulltrúar starfshóps 11 talsins. Auk þess starfar María Kristín Gylfadóttir verkefnastjóri með hópnum ásamt Vigdísi Guðmundsdóttur, leikskólaráðgjafa, sem er starfsmaður hópsins. Hlutverk þeirra er að halda utan um skipulag og dagskrá funda, skipuleggja samráð, fundargerðir, skýrslugerð og aðra gagnavinnslu.
Leikskólanefnd samþykkti tillöguna fyrir sitt leyti, með þeim fyrirvara að fulltrúa foreldra verði bætt í hópinn, og vísar tillögunni áfram til bæjarráðs.

Mynd: Frá vináttugöngu leikskóla- og grunnskólabarna í Kópavogi í nóvember

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar