Mikilvægt að grípa börnin ung

Komin er út þriðja súperbókin, Súper Vinalegur eftir barnasálfræðingana Soffíu Elínu Sigurðardóttur og Paolu Cardenas.

Svo því sé komið á framfæri þá er Soffía Elín Sigurðardóttir fædd og uppalin í Garðabæ og er búsett þar í dag. Skólaferill hennar hófst á Bæjarbóli þegar eingöngu var í boði að vera hálfan daginn hjá Boggu og Ernu. Lá leið hennar síðan í Flataskóla og Garðaskóla og svo í háskóla. Síðar lá leið hennar til Ástralíu þar sem hún útskrifaðist sem skóla- og þroskasálfræðingur.

Soffía Elín hefur starfað sem barnasálfræðingur sl. 16 ár við meðferðar- og greiningarvinnu meðal barna og ungmenna á eigin stofu Sentia en starfrækir einnig námskeiðin Nexus Noobs o.fl.

Soffía Elín hefur verið í samstarfi við Paolu Cardenas barnasálfræðing en hafa þær haldið úti námskeiðum fyrir börn og unglinga m.a. í samstarfi við ADHD samtökin. Fannst þeim mikilvægt að grípa börnin ung og koma í veg fyrir að smærri vandamál þróuðust í stærri síðar á lífsleiðinni. Frumsömdu þær barnabækur sem miðla sálfræðiþekkingu til ungra barna og eru hugsaðar sem snemmtæk íhlutun. Markmið súperbókanna er að kenna börnum að þekkja eigin tilfinningar, uppgötva eigin styrkleika og læra bjargráð sem hjálpar þeim að öðlast sterkari sjálfsmynd.

,,Súperbækurnar byggjast á gagnreyndum sálfræðimeðferðum líkt og hugrænni atferlismeðferð (HAM) og núvitund. Sálfræðiaðferðirnar eru í raun þær sömu fyrir allan aldur en hafa verið einfaldaðar fyrir börn. Í öllum bókunum er að finna félagsfærnisögu þ.e. stutta sögu sem hjálpar börnum úr aðstæðum, æfingar sem bæði dýpka skilning á efninu og geta nýst sem bjargráð út ævina,” segir Soffía Elín.

Ekkert aldurstakmark á bókunum

,,Fyrstu tvær bækurnar eru ætlaðar börnum allt frá 4 ára aldri en Súper Vinalegur er fyrir örlítið eldri börn. Geta þó uppalendur lesið og miðlað efninu til barna. Ekkert aldurstakmark er hins vegar á bókunum og hvetjum við foreldra jafnt sem fagaðila eins og leik- og grunnskólakennara, sálfræðinga og námsráðgjafa til þess að nýta bækurnar í leik og starfi,” segir Soffía

Súper styrkirnir eru sex talsins og var þriðja bókin að koma út sem heitir Súper Vinalegur en Súper Viðstödd og Súper Vitrænn komu út fyrir ári síðan. Bækurnar byggja á þekkingu þeirra sem þegar eru komnar út en í bókinni Súper Viðstödd var lagt upp með að kenna innsæi, öndunar- og núvitundaræfingar sem bjargráð við órólegum huga og erfiðum aðstæðum. Súper Vitrænn fjallar um depurð og hvernig hægt er að notast við hugræna atferlismeðferð (HAM). Súper Vinalegur kennir börnum og foreldrum leiðir til að takast á við kvíða. Hægt er að nálgast allar bækurnar í öllum helstu bókabúðum og á heimasíðunni sjalfstyrkur.is

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar