Þjónustufyrirtækið Garðabær

Við kaupum ýmiss konar þjónustu af þjónustufyrirtækjum. Sem dæmi má nefna rafmagn, síma og hita, þjónustu iðnaðarmanna, gistingu, öryggisþjónustu auk menningar og lista. Sama má segja um þjónustu Garðabæjar sem við borgum með útsvari okkar, þjónustu-, fasteigna- og lóðagjöldum.

Fyrir útsvarið okkar fáum við ýmsa þjónustu frá bænum okkar í staðinn. Við fáum kennslu, leikvelli og stuðning fyrir börnin okkar. Þjónustu fyrir fatlaða, sundiðkun og íþróttaaðstöðu. Eldri íbúar Garðabæjar fá heimaþjónustu, akstur, mat og heilsueflingu. Við gerum kröfur um hreinar götur, hálkuvarnir og holræsi, almenningssamgöngur og rafræna þjónustu auk svara við fyrirspurnum og umsóknum. Einnig njótum við þjónustu bókasafns, útivistarsvæða, götulýsingar, sorphirðu og lóðaframboðs svo nokkur atriði séu nefnd. Þannig sést hvað þjónustuhlutverk bæjarins er viðamikið og gerir líf okkar betra.

Ábyrg fjármálastjórn

Það skiptir miklu máli að þjónustufyrirtækið Garðabær veiti okkur íbúum gæðaþjónustu sem er veitt með sem lægstum kostnaði. Garðabær kaupir þessa þjónustuþætti og vörur af hundruðum fyrirtækja og stofnana, ýmist með útboði eða verðkönnun og þjónustusamningum. Vert er að benda á að bærinn okkar kaupir vörur og þjónustu fyrir um 7 milljarða króna á hverju ári samkvæmt ársreikningi bæjarins sem samsvarar um 20 milljónum króna á dag. Önnur þjónusta er unnin af starfsfólki bæjarins.

Viðreisn í Garðabæ leggur mikla áherslu á þjónustuhlutverk bæjarins. Við viljum að tekjum bæjarins sé ávallt forgangsraðað í þágu velferðar, innviða og framúrskarandi grunnþjónustu fyrir alla aldurshópa. Við teljum að hægt sé að ná mun betri árangri í rekstri og þjónustu Garðabæjar með auknu kostnaðaraðhaldi í daglegum rekstri og markvissari innkaupum á vörum og þjónustu. Viðreisn vill sjá hagræðingu á öllum sviðum rekstrar og þjónustuframboðs bæjarins. Við teljum að með því að líta á bæjarfélag eins og Garðabæ sem þjónustufyrirtæki megi bæta þjónustuna og lækka kostnaðinn við að veita hana.

Framúrskarandi þjónusta

Þjónusta Garðabæjar þarf að hafa skýr markmið um betra mannlíf í bænum okkar, að íbúar geti lifað góðu, öruggu lífi í Garðabæ og njóti framúrskarandi samfélagsþjónustu á öllum sviðum hins daglega lífs. Það er ein af helstu áherslum Viðreisnar í Garðabæ í næstu sveitarstjórnarkosningum.

Thomas Möller
Verkfræðingur, varaþingmaður Viðreisnar og skipar heiðurssæti á lista Viðreisnar í Garðabæ

Guðlaugur Kristmundsson
Markaðsstjóri og skipar 2. sæti á lista Viðreisnar í Garðabæ

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar