Hver elskar ekki ítalska matargerð? Ítölsk gæðakvöldstund með Michele Mancini í Kjötkompaní

Jón Örn Stefánsson matreiðslumeistari og eigandi Kjötkompaní, stendur fyrir ítalskri gæðakvöldstund með stórvini sínum, Michele Mancini, fyrir ofan verslun Kjötkompaní í Dalshrauni Hafnarfirði, í febrúar.

Hverjir elska ekki ítalska matargerð, en á námskeiðinu mun Michele Mancini elda átta ítalska rétti fyrir gesti og kenna þeim öll helstu ,,trixin“ á bak við réttina. Gestir á námskeiðinu fá að sjálfsögðu að smakka á réttunum og boðið verður upp á sérvalið ítalskt rauðvín og hvítvín með matnum, en ekki hvað!

Þetta er ekki fyrsta námskeiðið sem Michele Mancini heldur með Jóni Erni í Kjötkompaní, en þeir félagar kynntust árið 2015. ,,Þá var strax ákveðið að fara í heimsókn til Ítalíu og kanna alla möguleika á samstarfi. Það samstarf hefur heldur betur lifað lengi og er í dag ekki aðeins viðskiptasamband heldur einnig afar dýrmæt vinátta,” segir Jón Örn.

Sælkerar verða ekki fyrir vonbrigðum

Og hvaða ítalska rétti ætlar Michele að töfra fram á kvöldinu eða á það að koma á óvart? ,,Við komum til með að rúlla í gegnum átta ólíka rétti, svo eitthvað sé nefnt þá eldar Michele meðal annars bresaola með klettasalati og svörtum sumar trufflum, ravioli með humar og trufflu ostakremi auk sex annarra rétta. Það er alveg ljóst að sannkallaðir sælkerar verða ekki fyrir vonbrigðum með þá rétti sem Michele töfrar fram.”

Allir fá uppskriftir og aðferðir með sér til þess að geta eldað heima

Og þátttakendum verður kennt öll trixin á bak við réttina, verða gestir að mæta með glósubókina með sér? ,,Allir þeir sem mæta til okkar á ítalska kvöldstund með Michele fá öll helstu trixin beint í æð á meðan á kvöldinu stendur, fá að fylgjast með hvernig hann fer að, kynnast vörunum sem notaðar eru og einnig fá allir uppskriftir og aðferðir með sér til þess að geta eldað heima alla þá gómsætu rétti sem Michele töfrar fram, svo glósubók er óþörf.”

Byrja að elda bolognese snemma morguns og elda það fram á kvöld

Hvað með hráefnin sem hann notar, er hægt að fá þau öll í Kjötkompaní ef þátttakendur vilja búa til ítalska gæðastund heima hjá sér? ,,Já, öll helstu hráefnin er hægt að fá hjá okkur í Kjötkompaní. Okkur finnst mikilvægt og eins gaman að geta kennt okkar viðskiptavinum hvernig á að nota öll þessi hráefni og gæðavörur sem við bjóðum upp á í verslunum okkar. Þá kemur eflaust mörgum á óvart hve misjafnar eldunaraðferðirnar Ítala eru frá því sem við erum vön. Svo dæmi sé tekið þá sjóða Ítalir pasta með öðrum hætti en við erum vön, þeir byrja einnig að elda bolognese snemma morguns og elda það fram á kvöld á meðan við Íslendingar rumpum því yfirleitt af á 10 mínútunum. Það er því gríðarlega skemmtilegt að sjá aðferðir Michele við eldamennskuna og geta boðið upp á gæðastund sem hægt er að endurtaka heima seinna meir.”

Og svo bjóðið þið einnig upp á fordrykk og sérvalið ítalsk rauðvín og hvítvín, þetta þarf allt að vera rétt parað saman, matur og vínið? ,,Já, við bjóðum upp á sérvalin vín með, þ.e. fordrykk og einnig sérvalið ítalskt rauðvín og hvítvín sem passa vel með þeim réttum sem boðið verður upp á.”

Mikil skemmtun fyrir alla

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem þið félagar haldið slík ítölsk kvöld, alltaf mikil gleði, skemmtun og lærdómur? ,,Já, það er alveg á hreinu að þessar gæðakvöldstundir hafa hitt í mark hjá þeim sem þær hafa sótt, mikil eftirspurn er eftir þessum ítölsku kvöldstundum. Kvöldin hafa gengið virkilega vel og er mikil skemmtum bæði fyrir okkur og þau sem hjá okkur eru á hverju kvöldi.”

Rosalega vinsælt hjá vinahópum

Og geta allir skráð sig, einstaklingar og jafnvel hópar? ,,Öllum er velkomið að skrá sig, hvort sem það eru einstaklingar eða hópar. Þetta hefur verið rosalega vinsælt hjá vinahópum og tilvalið að gera sér gott kvöld, borða átta dýrindis ítalska rétti og fá sér góð ítölsk vín. Svo er auðvitað að koma að bóndadeginum og þetta er nú ekki slæm gjöf fyrir bóndann,” segir Jón Örn brosandi og bætir við: ,,Við erum með nokkrar dagsetningar sem hægt er að velja um og hefst hver kvöldstund kl. 18.30 fyrir ofan verslun okkar í Hafnarfirði.

Skráning fer fram í gegnum vefsíðu Kjötkompaní: www.kjotkompani.is og er verðið 16.900 kr. á mann.

Mynd: Fagmenn að störfum! Jón Örn og Michele Mancini verða í stuði í Kjötkompaní í febrúar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar