Hefur þú heyrt um Grunnstoð?

Hefur þú heyrt um Grunnstoð? Grunnstoð gegnir veigamiklu hlutverki í Garðabæ án þess að hafa verið fyrirferðarmikil í umræðunni. Þegar ég tók við sem formaður setti ég mér það markmið að kynna starf Grunnstoðar betur fyrir bæjarbúum og hvernig hún hefur áhrif á umhverfi barnanna okkar.

Hvað er Grunnstoð?

Grunnstoð er hagsmunahópur foreldra grunnskólabarna í Garðabæ og málsvari þeirra. Tilgangur Grunnstoðar er að efla rödd foreldra og sameina krafta þeirra til góðra verka í skólamálum, á faglegan og málefnalegan hátt. Tveir fulltrúar hvers foreldrafélags allra grunnskóla í Garðabæ eiga sæti í Grunnstoð og má því segja að Grunnstoð sé samstarfsvettvangur foreldrafélaganna. Mikil áhersla er lögð á samskipti milli skóla, nemenda og foreldra og hvernig hægt er að styrkja samtalið. Grunnstoð starfar í samstarfi við Heimili og skóla, sem eru landssamtök foreldra.

Hvað gerir Grunnstoð?

Fyrirferðarmesta hlutverk Grunnstoðar er að halda úti svokölluðu foreldrarölti. Tilgangur foreldraröltsins er að mynda tengsl og koma á auknu samtali á milli foreldra í Garðabæ, en það hefur mikilvægt forvarnagildi að foreldrar þekkist og tali saman. Hugmyndin er að foreldrar sameinist í göngu á fyrirfram ákveðnum dögum. Sýnileiki fullorðinna er ein besta forvörnin gegn óæskilegum hópamyndunum og getur minnkað líkurnar á að börnin okkar lendi í aðstæðum sem gætu orðið erfiðar fyrir þau.

Bænaskjal

Árlega hitta fulltrúar Grunnstoðar fulltrúa foreldrafélaga sinna skóla, ásamt skólastjórnendum, á fundi þar sem teknar eru saman tillögur að úrbótum, bæði sértækar fyrir hvern skóla og sameiginlegar fyrir alla grunnskóla í Garðabæ. Skjalinu, sem ber vinnuheitið „Bænaskjal“, er skilað með athugasemdum og óskum foreldra um úrbætur í skólum Garðabæjar. Athugasemdir geta meðal annars snúist um að bæta þurfi lýsingu eða aðbúnað á skólalóðum, aðstöðu eða viðhald á skólahúsnæði eða bætt öryggi við skólana sjálfa. Ekki er síður mikilvægt að Grunnstoð komi að ábendingum um innra starf skólanna, hvort sem um ræðir hugmyndir að nýjungum eða eitthvað sem betur má fara.

Undanfarin ár hafa þessar tillögur meðal annars snúið að ýmsum úrbótum, t.a.m. á gangbrautum, undirgöngum eða girðingum, hvernig má bæta leiksvæði, uppfæra battavelli eða fá ný leiktæki, setja yfirbyggð hjóla og hlaupahjólaskýli við skólana, fá hafragraut á morgnana eða koma á sumaropnun frístundaheimilanna.
Öllum foreldrum er velkomið að senda inn tillögur, spurningar eða athugasemdir á [email protected].

Samstarf við bæjaryfirvöld.

Grunnstoð auðveldar foreldrafulltrúum að vera bæjaryfirvöldum til aðstoðar og ráðuneytis um skóla- og fjölskyldumál. Grunnstoð vinnur sem áður segir að sameiginlegum málefnum skólanna og gefur umsagnir um ýmis mál er varða starfsemi þeirra. Á hverju ári hitta fulltrúar Grunnstoðar bæjaryfirvöld og afhenda þeim fullunnið bænaskjal sem þau geta unnið með. Sem dæmi hefur frístundarstarf á miðstigi verið virkjað eftir tillögu og áherslur Grunnstoðar.

Fulltrúi í skólanefnd grunnskóla

Grunnstoð Garðabæjar skipar fulltrúa úr sínum röðum í skólanefnd grunnskóla. Hlutverk hans er að fylgja eftir erindum til skólanefndar frá Grunnstoð, foreldrafélögum og öðrum sem til hans leita. Einnig þarf hann að miðla upplýsingum til Grunnstoðar varðandi mál sem tekin eru fyrir á fundum skólanefndar. Fulltrúi foreldra er um þessar stundir Hjörtur Jónsson, varaformaður Grunnstoðar. Hann situr fundi skólanefndar, hefur málfrelsi og tillögurétt og því geta foreldrar snúið sér með fyrirspurnir beint til hans eða til fulltrúa Grunnstoðar í viðkomandi skóla sem kemur málinu áleiðis.

Öflugt samtal – barnvænt umhverfi

Eins og sjá má hefur Grunnstoð veigamiklu hlutverki að gegna er varðar aðkomu að öllum þeim málefnum sem snerta grunnskólabörnin okkar. Vettvangurinn veitir bæjaryfirvöldum aðhald er kemur að rekstri og þjónustu grunnskólanna um leið og hann styttir boðleiðir og nýtir samtakamátt foreldra og eflir samstarf þeirra. Mikill árangur hefur náðst með öflugu samtali og samstarfi foreldrafélaga í gegnum Grunnstoð. Ég hvet foreldra grunnskólabarna í Garðabæ til að kynna sér starf foreldrafélaga skólanna og taka þátt í starfinu. Í því felst besta forvörnin.

Vera Rut Ragnarsdóttir, formaður Grunnstoðar í Garðabæ

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar