Sigga Ózk fulltrúi Garðbæinga í úrslitaþætti Söngvakeppninnar á laugardaginn

Það var mikið um dýrðir í Söngvakeppnishöllinni í Gufunesi sl. laugardagkvöld þar sem seinni undanúrslit Söngvakeppninnar 2023 fóru fram, en þar gerði Garðbæingurinn, Sigga Ózk sér lítið fyrir og flaug inn í úrslitaþáttinn, sem er á morgun, laugardaginn 4. mars, með laginu ,,Gleyma þér og dansa.”

Seinni undanúrslitin voru beinni útsendingu á RÚV og það sama verður upp á teningnum n.k. laugardag þegar úrslitaþátturinn fer fram, en ásamt Siggu Ózk eru það Langi Seli og Skuggarnir, Clebes, Bragi og Diljá sem komust í úrslitaþáttinn.

Garðapósturinn náði í Siggu Ózk á hlaupum enda í nógu að snúast fyrir úrslitaþáttinn.

Þú er væntanlega í skýjunum með að vera komin inn í úrslitakvöld söngvakeppninar, ákveðin áfangasigur og varstu ánægð með frammistöðuna og atriðið þitt sl. laugardag? ,,Ég er mjög ánægð með hvernig atriðið fór og ég er mjög stolt af dönsurunum og öllu teyminu á bakvið atriðið,” segir hún.

Sigga Ózk fór á kostum á sviðinu sl. laugardag. Mynd Mummi Lú

Þrjár skemmtilegustu mínútur lífs míns

Og hvernig upplifun var það að syngja fyrir framan alla þessa áhorfendur í Gufunesi og vitandi það að nánast öll þjóðin fylgdist svo með í beinni útsendingu á RÚV? ,,Þetta voru skemmtilegustu þrjár mínútur lífs míns,” segir Sigga Ózk brosandi.

Varstu stressuð áður en þú gekkst á svið á laugardaginn eða bara tilhlökkun? ,,Auðvitað er maður stressaður fyrir því sem skiptir mann svona miklu máli. En aðal atriðið var að njóta og hafa gaman að þessu! Og ég gerði það svo sannarlega”

Eintóm gleðiveisla

Hefur þú alltaf fylgst vel með söngvakeppni sjónvarpsins og Eurivison, ertu í Eurovision fjölskyldu? ,,Ég hef horft á söngvakeppnina og eurovision með fjölskyldunni og ELSKA þessa keppni því þetta er eintóm gleðiveisla.”

Heppin að hafa smíðað draumalífið í kringum sig

En kemst eitthvað annað að hjá Siggu Ózk en tónlist? ,,Sköpunarvinna í hvaða formi sem er er það yndislegasta í heimi. Leiklist, dans og myndlist eru ofarlega á mínum áhuga lista. Ég er svo heppin að hafa smíðað draumalífið í kringum mig,” segir hún og heldur áfram: ,,Ég er semsagt á söngleikjadeild í Söngskóla sigurðar Demetz og einnig að kenna í grunnskólum. Ég elska að kenna og hjálpa börnum að verða sterkir og sjálfstæðir einstaklingar.”

Og aftur af söngvakeppni Sjónvarpsins, hvernig hefur þessi vika verið, stífar æfingar? ,,Við vorum á svo stífum æfingum fyrir undankeppnina þannig núna er eiginlega fyrsta ,,slökunarvikan” hvað æfingar varðar,” segir hún og brosir.

Sigga Ózk segist hafa verið mjög ánægð hvernig atriðið var og hún var mjög stolt af dönsurunum og öllu teyminu á bakvið atriðið. Mynd Mummi Lú

Og hvernig sem fer á laugardaginn, hvert stefnir Sigga Ózk í framtíðinni? ,,Hvernig sem fer í söngvakeppninni er ég ævinlega þakklát fyrir þetta risa tækifæri og mun auðvitað halda áfram að gera tónlist, kenna og hjálpa börnum og vonandi stíga á stærri og stærri svið útum allan heim. Ég mun halda áfram að dreifa gleði og jákvæðni í gegnum sköpun og vonandi hafa góð áhrif á heiminn,” segir Sigga Ózk að lokum.
Lagið hennar Siggu Ózkar, Gleyma þér og dansa/Dancing Lonely er eftir Klöru Elías, Ölmu Goodman, David Mørup og James Gladius Wong. Textinn er eftir Klöru og Ölmu.

Nú þurfa Garðbæingar bara að sitja límdir við skjáinn næsta laugardag og styðja sína konu, en Sigga Ózk er fyrst á svið á laugardaginn. Þú gefur henni atkvæði með því að hringja í símanúmerið 900 9901, en það er eðlilega ekki hægt að kjósa fyrr en opnað verður fyrir símakosninguna nk. laugardag.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar