Nýtt kerfi um flokkun á sorpi tekið upp í Kópavogi í sumar

Um mitt ár 2023 hefjast útskipti á tunnum til sorphirðu í Kópavogi. Er það gert í kjölfar nýrra laga og reglna á landsvísu um flokkunarkerfi sorps sem tóku gildi um síðustu áramót. Flokkun í sorptunnur fyrir íbúðir og fyrirtæki verður nú fjórþætt og skipt niður í pappír, plast, matarleifar og blandaðan úrgang. Með þessari aðgerð er í fyrsta skipti komið á samræmdu flokkunarkerfi á höfuðborgarsvæðinu en eftir því hefur lengi verið kallað.

Tunnum fyrir þessa fjóra flokka verður komið fyrir við íbúðarhús eftir þörfum. Markmiðið er að fjölga tunnum hjá íbúum eins lítið og hægt er heldur leitast við að koma tunnum fyrir í þeim rýmum sem nú eru til staðar hjá íbúum.

Stærsta breytingin í nýju kerfi er að öll heimili munu fá sérstaka tunnu fyrir matarleifar. Verður leifunum safnað í tunnuna í sérstökum bréfpoka sem íbúum verður útvegaður. Lífrænn úrgangur hefur í gegnum tíðina verið urðaður í miklu magni. Með nýju löggjöfinni er það ekki lengur heimilt heldur skal nýta úrganginn til verðmætasköpunar t.d. með framleiðslu metangass og jarðvegsbætandi moltugerðar sem nýtist til landgræðslu. Við þá aðgerð minnkar losun gróðurhúsalofttegunda frá úrganginum umtalsvert samanborið við urðun. Forsendan fyrir slíkri framleiðslu er samt sú að lífræni úrgangurinn sé sem minnst blandaður öðrum efnum og því er nauðsynlegt að ráðast í sérsöfnun á honum.
Ný nálgun á söfnun og flokkun sorps auðveldar alla úrvinnslu, endurvinnslu og endurnýtingu þess sem til fellur. Um leið fjölgar tækifærum til verðmætasköpunar. Mestu skiptir þó að bætt vinnubrögð og framþróun ferla skilar okkur fram á veginn í loftslags- og umhverfismálum almennt.

Til að þessi markmið verði að veruleika þarf samstöðu og gott samstarf við bæjarbúa. Í átt að betri heimi í umhverfismálum þurfum við öll að leggjast á árina. Margt smátt gerir svo sannarlega eitt stórt stórt í þessum efnum. Ég hvet bæjarbúa til þess að kynna sér vel hið nýja fyrirkomulag. Greinargóðar upplýsingar um þær breytingar sem í farvatninu eru má finna á heimasíðu Sorpu (www. sorpa.is)

Orri Hlöðversson
Formaður bæjarráðs í Kópavogi og stjórnarmaður i Sorpu.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar