Ég er þakklátur með að fá tækifærið og traustið

Á fundi aðalstjórnar Stjörnunnar 17. október sl. var samþykkt að ráða Baldvin Sturluson í stöðu framkvæmdastjóra Stjörnunnar, en hann tekur við starfinu af Ásu Ingu Þorsteinsdóttur.
 
Baldvin er fæddur árið 1989 og hefur starfað sem fjármálastjóri Stjörnunnar síðan 2020 ásamt því að hafa gegnt stöðu framkvæmdastjóra félagsins tímabundi frá 1. maí sl. „Mikil ánægja hefur verið hjá aðalstjórn og deildum félagsins með frammistöðu Baldvins þessa rúma sex mánuði í starfi framkvæmdastjóra og því afar ánægjulegt að hann hafi verið tilbúinn til þess að taka að sér starf framkvæmdastjóra til lengri tíma,“ segir Sigurður Guðmundsson formaður Stjörnunnar.
 
Baldvin lék í mörg ár með Stjörnunni auk þess sem hann hefur þjálfað yngri flokka félagsins. Baldvin lauk BSc gráðu í Viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2013 og lauk mastersgráðu í reikningsskilum og endurskoðun frá Háskólanum í Reykjavík árið 2015.

Hjartað hefur alltaf slegið með Stjörnunni

Garðapósturinn hitti Baldvin að máli og byrjaði á því að spyrja hann hvernig það hafi komið til að hann byrjaði að starfa fyrir félagið sem fjármálastjóri árið 2020 – hafði Stjörnuhjartað eitthvað um það að segja?
„Hjartað hefur alltaf slegið með Stjörnunni, þannig að óhjákvæmilega skipti það máli. Ég er uppalinn í Garðabæ og spilaði með Stjörnunni upp alla yngri flokka ásamt því að hafa spilað með meistaraflokki félagsins á árunum 2008 – 2014,“ segir Baldvin sem starfaði áður hjá KPMG á endurskoðunarsviði. „Þar fékk ég mikil tækifæri til að þróast sem starfsmaður og öðlaðist mikla reynslu. Ég var hins vegar farinn að finna það hjá sjálfum mér að mig langaði til að breyta um umhverfi þannig að þegar ég sá stöðuna auglýsta hjá Stjörnunni ákvað ég að prófa að sækja um,“ segir hann.

Þú tókst svo við sem framkvæmdastjóri félagsins á dögunum. Hvernig líst þér á að taka við þeirri stöðu?
„Ég er þakklátur með að fá tækifærið og traustið. Frá því að ég hóf störf hjá félaginu þá unnum við Ása Þóra mjög þétt saman og á hún allt hrós skilið. Að starfa hjá Stjörnunni er krefjandi en um leið mjög gefandi. Vinnustaðurinn er kvikur og gríðarlega skemmtilegur, þannig að ég er spenntur fyrir komandi tímum hjá félaginu,“ segir Baldvin og bætir við að hann hafi lært gríðarlega mikið frá því hann hóf störf hjá Stjörnunni og hafi haft mjög gaman af því að vinna með fólkinu í félaginu.

Hægt að efla gott samstarf við bæinn

Eitthvað kostar nú að halda þessari starfsemi úti svo vel megi vera. Hver er rekstrarkostnaður Stjörnunnar yfir árið og hver er staða félagssins fjárhagslega?
„Rekstur íþróttafélaga á Íslandi er mjög krefjandi. Félagið er ágætlega statt fjárhagslega miðað við mörg önnur félög í kringum okkur. Rekstrarkostnaður félagsins er í kringum 900 milljónir kr. á ári. Inni í þeirri tölu eru aðstöðustyrkir sem koma frá Garðabæ og eiga þeir eftir að aukast með tilkomu Miðgarðs. Bærinn hefur alla tíð verið okkar stærsti styrktaraðilið og eiga embættismenn bæjarins og kjörnir fulltrúar hrós skilið fyrir frábær samskipti,“ segir Baldvin.

Að sögn Baldvins þarf að hætt að tala um styrki frá Garðabæ til handa Stjörnunni. Þess í stað ætti að líta á þetta sem keypta þjónustu. „Það er ekki langt síðan að ég var í yngri flokkum Stjörnunnar og þá var mun minna ætlast til af starfsmönnum félagsins. Eins og staðan er í dag í hröðu samfélagi að þá er íþrótta- og æskulýðsstarf beint framhald af skóla og leikskóla. Bærinn þarf að hjálpa félögunum í bæjarfélaginu að hjálpa sér sjálfum. Þar sem við búum í samfélagi þar sem erfitt er að manna leikskóla og vistun eftir skóla held ég að það sé lógísk hugmynd að félag eins og Stjarnan hefji starfsemi sína fyrr á daginn, létti undir leikskólum og skólum og létti einnig á mannvirkjum bæjarins,“ segir Baldvin og leggur áherslu á að þannig geti Stjarnan og Garðabær unnið saman að því að auka við fjármagn til Stjörnunnar.

Stjörnustelpur skíni enn skærar

Aðspurður segir Baldvin að félag eins og Stjarnan þurfi alltaf að stefna hátt. Það þurfi að gera meira og betur í afreksstarfinu og þá sérstaklega fyrir stelpurnar. „Stjarnan er að byggja upp körfuboltalið hjá stelpunum og eru þær að standa sig frábærlega í fyrstu deild. Í fótboltanum eru stelpurnar okkar komnar í Meistaradeild Evrópu, við erum í toppbaráttu í handboltanum og með langbesta fimleikalið landsins,“ segir Baldvin og leggur áherslu á að Garðabær og Stjarnan eiga að vera leiðandi í því að lyfta þessum frábæru fyrirmyndum enn hærra.

„Í gegnum tíðina hefur verið erfiðara að fá sjálfboðaliða, styrktaraðila og áhorfendur þegar kemur að kvennastarfinu. Það þýðir minni peningur í kassann fyrir félagið,“ segir Baldvin sem telur brýnt að bæjarfélagið setji meira fjármagn í þennan málaflokk til þess að auðvelda sjálfboðaliðum að koma inn í starfið. Verði það gert með myndarbrag geti hjólin farið að snúast.

Kraftmikið starf – 2532 iðkendur

Hvað eru margir iðkendur í Stjörnunni í dag?
„Stjarnan er með eitt stærsta barna- og unglingastarf á Íslandi í dag og eru iðkendur 2532 talsins. Þá eru fjölmargir iðkendur í meistaraflokkum félagsins í boltagreinum og fimleikum ásamt hlaupahópum Stjörnunnar, lyftingadeild og almenningsíþróttum,“ segir Baldvin.

Hvað eru margir starfsmenn á skrifstofunni í dag?
„Eins og staðan er í dag að þá eru 5 starfsmenn sem að vinna fyrir allar deildir, en við stefnum á að ráða sjötta starfsmanninn á næstu dögum,“ segir Baldvin. „Við erum síðan með starfsmenn sem að sjá um Samsung völlinn sem að við rekum, en þeir eru 3 ásamt vaktavinnu fólki. Deildirnar eru síðan með rekstrarstjóra og yfirþjálfara. Þegar starfsstöðvarnar eru full mannaðar þá erum við 15 – 16 sem að erum í Stjörnuheimilinu.“

Hvað er margir starfsmenn á launaskrá hjá félaginu, í hluta- og fullu starfi?
„Á síðasta ári fóru 406 kennitölur í gegnum launakerfið hjá félaginu. Fólk kemur og fer og er í mismunandi hlutverkum,“ segir Baldvin og bætir við að ekki megi gleyma þeim mannauði sem gefur félaginu vinnu sína og keyri starfið áfram. „Án sjálfboðaliðanna væri félag eins og Stjarnan ekki á sama stað og það er í dag.“

Og svo verð ég að minnast á það að þið eruð að taka í notkun nýja heimasíðu?
„Við höfum verið að vinna að því að bæta heimasíðuna hjá okkur og gera hana einfaldari og skilvirkari í rekstri. Dagur Jónsson, markaðsstjóri félagsins, hefur leitt þá vinnu fyrir okkar hönd og á hann hrós skilið fyrir það. Heimasíðan mun fara í loftið á næstu dögum,“ segir Baldvin.

Stefnumótun um framtíð Stjörnunnar

Aðalstjórn Stjörnunnar ákvað á stjórnarfundi 3. október sl. að ráðast í stefnumótunarvinnu þvert á félagið. Gengið hefur verið til samninga við ráðgjafafyrirtækið Stratagem og munu ráðgjafarnir Ása Karin Hólm og Þórður Sverrisson leiða vinnuna. „Þessi vinna mun hefjast á næstu dögum og erum við hjá Stjörnunni mjög spennt að fara í þessa vegferð,“ segir Baldvin. „Garðabær er ört vaxandi samfélag og Stjarnan er að stækka hratt. Í vinnunni munum við skoða hvernig við getum unnið betur saman innan félagsins og hvert við ætlum að stefna þegar kemur að barna- og unglingastarfi annars vegar og afreksstarfinu hins vegar. Þá munum við ræða hvar félagið á að staðsetja sig í Garðabæ, en ný hverfi eru að rísa og þeim fylgja innviðir,“ segir Baldvin og heldur áfram. „Félagið vill þjónusta bæjarbúa hvar sem þeir búa. Við sjáum fyrir okkur að hafa æfingar í einhvern tíma á nýjum fótboltavelli í Urriðaholti þegar fer að vora. Með því viljum við kynna starfið okkar og þjónusta nýja bæjarbúa í hverfinu.“

Að sögn Baldvin er ríkur vilji til þess að bjóða bæjarbúum að koma að stefnumótunarvinnunni – heyra sem flest sjónarmið, enda sé verið að móta stefnu Stjörnunnar til næstu ára. Hann segir mikil tækifæri felast í nýrri aðstöðu í Miðgarði sem eigi eftir að stækka í náinni framtíð, að þar geti miðpunktur bæjarfélagsins orðið og mögulega framtíðarheimili Stjörnunnar.

Hvenær eiga niðurstöður úr þessari vinnu að liggja fyrir?
„Við stefnum að því að klára vinnuna í apríl á næsta ári og kynna innleiðingaráætlun á aðalfundi Stjörnunnar sem haldinn verður skv. lögum félagsins í síðasta lagi 15. maí á næsta ári,“ segir Baldvin.

Verðum að hugsa vel um fólkið okkar

Spurður tekur Baldvin undir að félag eins og Stjarnan eigi mikið inni. Í flókinni skipulagsheild eins og Stjörnunni sé alltaf eitthvað sem megi bæta. „Við þurfum alltaf að vera á tánum gagnvart fólkinu okkar – iðkendum, þjálfurum og sjálfboðaliðum. Ég var iðkandi upp alla yngri flokka í fótbolta, handbolta og sundi og hef því kynnst ansi mörgu innan félagsins. Mér er eitt atriði sérstaklega hugleikið, en það er hvernig við skiljum við fólkið okkar,“ segir Baldvin og á þar við iðkendur sem ganga upp úr elstu flokkum í yngri flokkunum og komast ekki að í meistaraflokkum félagsins, leikmenn og þjálfara sem koma og fara, sjálfboðaliðana, foreldra iðkenda og starfsmenn Stjörnunnar.

„Við eigum að hugsa vel um fólkið okkar á meðan það er í starfi hjá Stjörnunni og við eigum að skilja vel við fólkið okkar þegar það lætur af störfum. Þetta er ekki hlutur sem breytist á einni nóttu, heldur þarf að breyta um hugarfar í félaginu og við félagsmenn í Stjörnunni þurfum að taka höndum saman um að breyta þessu. Iðkendurnir, leikmennirnir, sjálfboðaliðarnir og foreldrarnir eru aðilar sem við viljum að tali vel um félagið okkar. Komi jafnvel til baka í öðrum hlutverkum og verða mögulega forsvarsmenn fyrirtækja sem geta orðið styrktaraðilar í framtíðinni,“ segir Baldvin.

Bjartsýnn á framtíðina

„Framtíðin er björt hjá ört vaxandi félagi eins og Stjörnunni,“ segir Baldvin. „Garðabær og Stjarnan þurfa að halda vel á spöðunum til að halda innviðum bæjarins og félagsins við til að halda í við vöxtinn í bæjarfélaginu. Með allt þetta frábæra fólk sem stýrir bænum okkar og er innan raða Stjörnunnar hlakka ég til komandi samstarfs og er bjartsýnn á framtíðina.“ 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar