Bókaverðlaun barnanna

Mikil þátttaka var í kosningunni um Bókaverðlaun barnanna í Garðabæ en hátt í 600 atkvæði bárust. Börnin gátu kosið sínar uppáhalds bækur á almennings- og skólabókasöfnum bæjarins og nýtt sér veggspjald með mynd af öllum útgefnum barnabókum síðasta árs til aðstoðar. Úrslitin úr kosningunni eru tekin saman sérstaklega fyrir Garðabæ en einnig send áfram í landskosninguna og eru lokaúrslit úr henni kynnt í vor á Sögur – verðlaunahátíð barnanna.

Alexander Veigar
Anna Rakel

Vinsælustu íslensku bækurnar hér voru Orri óstöðvandi: Kapphlaupið um Silfur Egils eftir Bjarna Fritzson, Lóa og Börkur: Saman í liði eftir Kjartan Atla Kjartansson, Palli Playstation og Bannað að eyðileggja eftir Gunnar Helgason, Kennarinn sem kveikti í eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur og Lára bakar eftir Birgittu Haukdal. Af þýddum bókum voru efstar Ekki opna þessa bók – ALDREI!, Dagbók Kidda klaufa, Leyndarmál Lindu, Hundmann og Handbók fyrir ofurhetjur.

Þrír heppnir þátttakendur sem skiluðu inn atkvæðaseðlum voru dregnir út og fengu þeir bók í verðlaun. Það eru þau Alexander Veigar 8 ára í Álftanesskóla, Anna Rakel 11 ára í Flataskóla og Ragnhildur Ylfa 9 ára í Hofs-staðaskóla. Sumarlestur, lestrarátak bókasafnsins, hófst með opnunarhátíð 28. maí. Þá fengu börnin afhentar lestrardagbækur og Bjarni Fritzson las úr hinum vinsælu bókum sínum. Þátttaka í Sumarlestri hjálpar til við að viðhalda og jafnvel auka við lestrargetuna í sumarfríinu. Lesum saman í sumar!

Rósa Magnúsdóttir, Bókasafni Garðabæjar

Forsíðumynd er af Ragnhildi Ylfu

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar