Útivistarsvæði og verslanir í stað Sorpu á Dalvegi

Sorpu var úthlutað lóð við Dalveg 1 til bráðabirgða árið 1991 og nú, rúmlega þrjátíu árum síðar, er kominn tími til að nýta lóðina í annað. Við viljum hlúa betur að útivistarsvæðinu í Kópavogsdal og efla verslun og þjónustu þarna segir Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri  Kópavoga.

Uppsögnin engin skyndiákvörðun

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, segir það ekki skyndiákvörðun að segja Sorpu upp lóðasamningi vegna Dalvegs 1. „Það hefur lengi verið þröngt um starfsemi Sorpu þarna. Í samstarfssamningi núverandi meirihluta segir að hugað verði að flutningi Sorpu af Dalvegi og áhersla lögð á eflingu grenndargerða víða um bæinn. Þá er þessi ákvörðun í fullu samræmi við núverandi aðalskipulag. Við endurskoðun aðalskipulags, sem samþykkt var síðastliðið vor, var landnotkun lóðarinnar að Dalvegi breytt þannig að móttökustöðin er ekki lengur í samræmi við skipulag. Þá er enginn lóðarleigusamningur fyrir hendi milli Kópavogsbæjar og Sorpu. Hér er því ekki einu sinni um eiginlega uppsögn að ræða. Með því bréfi sem sent var til Sorpu var ég sem bæjarstjóri að greiða fyrir því að stefna Bæjarstjórnar kæmist til framkvæmda.“

„Það er því langur aðdragandi að því að Sorpu var tilkynnt að loka þurfi móttökustöð að Dalvegi 1. En það er vert að benda á að ákvörðun tekur ekki gildi fyrr en í september 2024 þannig að forsvarsfólk Sorpu hefur góðan tíma til þess að byggja upp nýja stöð. Við hjá Kópavogsbæ munum að sjálfsögðu leggja okkar til í þeim undirbúningi meðal annars að efla grenndarstöðvar í hverfum Kópavogs og það verður gert í góðu samráði við íbúa Kópavogs í þeirri vinnu.“

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, segir það ekki skyndiákvörðun að segja Sorpu upp lóðasamningi vegna Dalvegs 1

Kópavogsdalur ein af perlum bæjarfélagsins

Ásdís segir ákvörðunina því ekki átt að hafa komið forsvarsmönnum Sorpu á óvart en fjallað var um erindi bæjarstjóra á fundi Sorpu í lok september og í framhaldinu í fjölmiðlum. „Kópavogsdalur er ein af perlum bæjarfélagsins og bæjarbúar í hverfinu hafa kallað eftir því að þarna verði byggt upp fjölbreytt þjónusta og verslun á svæðinu í góðri sátt við útivistarsvæðið okkar og með betri tengingu við það en nú er. Það er gríðarlega spennandi verkefni sem verður áhugavert að taka þátt í og ég held að íbúar verði mjög ánægðir með.“
 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar