Stuðmenn mæta á nýja hátíð í Garðabæ sem haldin verður á föstudaginn á Garðatorgi

Rökkvan er glæný listahátíð í Garðabæ sem fer fram föstudaginn 28. október 2022 frá klukkan 19:00 á Garðatorgi. Það eru ungmenni úr Garðabæ sem hafa skipulegt alla dagskrá í félagi við menningarfulltrúann Ólöf Breiðfjörð með dyggri aðstoð Gunna Rich. Ungmennin sem eiga hugmyndina að nafninu og dagskránni eru þau Alexandra Rós Norðkvist, Bryndís Ásta Magnúsdóttir, Einar Örn Magnússon, Guðrún Ágústa Gunn- arsdóttir, Matthías Helgi Sigurðarson og Tinna Margrét Hrafnkelsdóttir. Aðgangur á hátíðina er ókeypis. Rökkvan einkennist af gleði, lífi og list og öll fjölskyldan ætti að geta notið kvöldsins saman. Rökkvuhópurinn var tekinn tali og sögðu frá hugmyndinni.

Tónlist, myndlist og handverk

Kjarni hátíðarinnar er tónlistin. Í glerhýsinu á Garðatorgi 4 verður svið þar sem nokkur spennandi tónlistaratriði fara fram. ,,Við byrjum á ungu tónlistarfólki sem eru að feta sín fyrstu skref í bransanum, Spagló og Eik, Sigga Ózk og Rökkvubandið en tónlistardagskráin hefst kl. 19 með Stórsveit Tónlistarskóla Garðabæjar. Í lok kvölds fengum við hinsvegar hljómsveit sem er vel kunnug í tónlistarbransanum til að ljúka Rökkvunni með stæl og sú hljómsveit er engin önnur en Stuðmenn,” segja ungmennin.

,,Okkur langaði að gefa öðrum ungum listamönnum tækifæri til að koma fram og úr varð að bjóða fullt af ungum listamönnum til að sýna og selja list og handverk. Það verður því glæsilegur markaður með yfir tuttugu þátttakendum staðsettur í göngugötunni Garðatorgi 1 en markaðurinn teygir sig upp í salinn við hlið Gróskusalar. Þá verður Gróska, myndlistarfélag Garðbæjar með sýningaropnun í Gróskusal sem hefst kl. 18:30 og stendur til 22,” segja þau.

Þennan sama dag opnar á Pallinum í Hönnunarsafni Íslands sýningin Dieter Roth: grafísk hönnun en í vinnustofu safnsins má einnig skoða hattagerðarmeistara að störfum.

Hvers vegna Rökkvan? ,,Við í framkvæmdastjórninni erum öll Garðbæingar og okkur fannst vanta fleiri uppákomur sem hentar fólki á öllum aldri í Garðabæ. Við þekkjum það vel hve skemmtilegir og lífsglaðir Garðbæingar geta verið en það sem hefur vantað að okkar mati er tilefni fyrir okkur öll til að hittast og gleðjast saman. Rökkvan er einnig staður þar sem ungt lista fólk fær tækifæri til að sýna hvað í þeim býr. Við viljum hafa áhrif á menningarlífið hér í Garðabæ og erum þess vegna óendanlega þakklát fyrir allan stuðninginn sem Menningar- og safnanefnd Garðabæjar hefur veitt okkur. Það er gaman fyrir okkur, ungt lista- fólk, að fá tækifæri frá bænum til að framkvæma þær hugmyndir sem við erum með.”

Hvernig fenguð þið hugmyndina af hátíðinni? ,,Hópurinn myndaðist þegar Tónlistarskólinn í Garðabæ setti okkur sex ásamt Alberti Elíasi Arasyni, saman í hljómsveit til að flytja lög á útskrift tónlistarskólans. Okkur kom svo vel saman að við vildum halda áfram að spila saman og fengum þá að koma fram á hátíðardagskrá á 17. júní. Eftir þá tónleika byrjuðum við að plana hvað við gætum gert næst. Í fyrstu ætluðum við hljómsveitin bara að halda tónleika en þar sem að við erum öll með ímyndunaraflið í lagi þá stækkaði sú hugmynd mjög fljótt og varð að Rökkvunni,” segja þau.

Garðapósturinn hvetur ykkur öll að koma á hátíðina 28. október 2022 klukkan 19:00. Rétt er að vekja athygli á að Tacoson-matarvagn verður á svæðinu, tilboð hjá Flatey á Rökkvupizzu og Lionsmenn selja drykki á tónleikunum.

Komum okkur saman og njótum listarinnar.

Rökkvuhópurinn

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar