IKEA Kauptúni stækkar um 12 þúsund fermetra eða um rúmlega þriðjung

Framkvæmdir eru hafnar á lóð IKEA í Kauptúni 4, en hugmynd forsvarsmanna IKEA er að stækka húsnæði fyrirtækisins með það að leiðarljósi að bæta við stóru vöruhúsi við verslunina og sameina allan rekstur fyrirtækisins í Kauptúni 4.

Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti fyrr á árinu tillögu að breytingu deiliskipulags Kauptúns 4 sem gerði ráð fyrir stækkun lóðar IKEA til vesturs ásamt stækkun byggingareits. Lóðin stækkaði þar með um 16.866 m2, en fyrir breytingu var hún 56.403 m2 en er nú 73.269 m2. Hámarksbyggingarmagn á lóð jókst úr 22.500 í 35.000 m2.

Framkvæmdir hafnar! Stefán Rúnar Dagsson framkvæmdastjóri IKEA segir að húsið eigi að vera tilbúið til notkunar þegar líður á árið 2024

Einfalda viðskiptavinum lífið

Stefán Rúnar Dagsson er framkvæmdastjóri IKEA og Garðapósturinn spurði hann hver tilgangurinn væri með stækkuninni? ,,Tilgangurinn er fyrst og fremst að sameina allan rekstur fyrir- tækisins á einn stað. Við erum á þremur stöðum í dag, en eftir að framkvæmdum lýkur verður allur rekstur í Kauptúni 4. Það er því hagræðing í þessu fyrir okkur og einnig þægindi fyrir okkar viðskiptavini því það einfaldar þeim lífið að þurfa ekki að fara á marga staði að sækja vörur,” segir Stefán Rúnar.

Stækka um 12.500 fermetra

Og það má í raun segja að þið séuð að stækka húsnæði IKEA í Kauptúni 4 um rúmlega þriðjung því hámarksbyggingamagn eykst úr 22.500 í 35.000 fermetra. Ætlið þið að nýta hvern fermetra? ,,Húsnæðið í Kauptúni 4 er löngu sprungið og við starfrækjum tvö önnur vöruhús og afgreiðslur í Kauptúni 3 og Suðurhrauni 10. Við erum að stækka Kauptún 4 um ca. 12.500 fermetra. Verslunin sjálf stækkar ekki en við stækkum lagerinn verulega og svo verða skrifstofur fyrirtækisins stækkaðar og sameinaðar á einn stað. Stækkunin felur einnig í sér stækkun á heimsendingasvæðinu okkar og betri aðstöðu fyrir þjónustu sem við hófum í upphafi Covid, Smelltu og sæktu. til viðbótar við það fáum við aðstöðu til að bjóða upp á nýjar lausnir sem verða kynntar til sögunnar eftir að við tökum nýju bygginguna í notkun.

Nýja viðbyggingin séð frá Reykjanesbrautinni með Setbergsland og Hafnarfjörð í baksýn
Stækkunin kemur fyrir aftan núverandi húsnæði IKEA

Eins og þú nefnir þá eruð þið að stækka vöruhúsið og lagerinn til að getað þjónustað betur netverslun fyrirtækisins. Hefur verið mikil aukning í netverslun IKEA? ,,Það varð eðlilega mikil breyting í Covid á netverslun og nýjar lausnir litu dagsins ljós. Netsala um það bil fimmfaldaðist í covid, en hefur dregist aftur saman, þó ekki í fyrra horf.”

Framkvæmdarlok haustið 2024

Uppgröftur hófst í þar síðustu viku, hvenær er stefnt á að húsið verði tilbúið til notkunar? ,,Húsið á að vera tilbúið til notkunar þegar líður á árið 2024. Við komum til með að taka það í notkun í skrefum og stefnt er á að framkvæmdum ljúki haustið 2024.”

Mun aðkoman að IKEA eitthvað breytast með þessari stækkun? ,,Aðkoma að versluninni sjálfri verður óbreytt og framkvæmdir munu ekki raska neinu fyrir framan versluninna.”

Erum mjög ánægð í Kauptúni Verslun IKEA opnaði í Kauptúni árið 2006. Þið eruð væntanlega ánægð með þá ákvörðun að hafa flutt í Garðabæ sem sýnir sig kannski best með fyrirhugaðri stækkun? ,,Við erum mjög ánægð í Kauptúninu. Hverfið hefur sannað sig og er orðinn vinsæll verslun- arstaður, einn af þeim vinsælustu á Íslandi, og samvinna milli fyrirtækja í hverfinu er mjög góð. Það er sameiginlegur vilji allra rekstraraðila hér að hafa heimsóknir í Kauptúnið sem ánægjulegastar fyrir viðskiptavini hverfisins.”

3000 nýjar vörur hvert ár

En hvernig er svo með IKEA, hvernig gengur reksturinn og á sér stað stöðug vöruþróun hjá fyrirtækinu og úrvalið alltaf að verða fjölbreyttara? ,,Reksturinn gengur vel og við getum ekki verið annað en sátt við árangurinn sem hefur náðst undanfarin ár. IKEA vöruúrvalið er í stöðugri þróun og við fáum u.þ.b. 3000 nýjar vörur hvert ár. Það er von á mörgum spennandi nýjungum á komandi mánuðum. Jólin eru nýhafin hjá okkur og þau fara vel af stað þrátt fyrir að það sé október,” segir Stefán Rúnar en 450 starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu í 360 stöðugildum. Hann segir að ekki þurfi að fjölga starfsfólki með stækkuninni í Kauptúni þar sem starfsfólkið muni flytjast á milli staða.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar