Garðlönd Kópavogsbæjar 2024

Löng hefð er í Kópavogi fyrir útleigu sk. garðlanda á vegum sveitarfélagsins. Garðlöndin eru matjurtagarðar sem leigðir eru bæjarbúum og er reksturinn í umsjá umhverfissviðs.

Garðlönd Kópavogsbæjar sumarið 2024 eru á eftirtöldum stöðum:

  • Við Guðmundarlund á Vatnsenda.
  • Við Kópavogsgerði, neðan við leik- og garðsvæði.
  • Norðan Kjarrhólma, í trjásafninu austast í Fossvogsdal.
  • Við Núpalind, ofan við leikskólann Núp.
  • Norðan Víðigrundar, við skólagarða vestarlega í Fossvogsdal.

Hingað til hefur aðeins verið um að ræða 25 fermetra skika, þ.e. moldarbeð, en nú er boðið upp á annan valkost. Þetta eru 8 fermetra upphækkaðir ræktunarkassar sem eru mjög hentugir til ræktunar grænmetis, ekki síst fyrir þá sem eiga erfitt með að beygja sig eða finnast 25 fermetrar vera fullmikið. Leigan er sú sama; 6.400 kr. Í ár er boðið upp á 50 slíka ræktunarkassa til útleigu. Flestir eru þeir í nýendurbættum garðlöndum í Fossvogsdal við Víðigrund en einnig eru nokkrir í boði við Guðmundarlund og Núpalind.

Garðlöndin verða á næstu dögum afhent til ræktunar og ræktunarkassarnir sömuleiðis. Á staðnum verður komið fyrir skiltum sem sýna legu garða og lista með nöfnum leigjenda. Á öllum stöðunum er aðgangur að vatni ásamt læstum verkfærakassa fyrir notendur þar sem eru skóflur, gafflar, hrífur, vatnskönnur og hjólbörur. Einnig er fyrirhugað að bjóða ræktendum upp á moltu frá Sorpu en leigjendur verða sjálfir að útvega sér plöntur / útsæði og áburð.

Garðlöndum og skólagörðum er stundum ruglað saman, enda matjurtarækt stunduð á báðum stöðum. Segja má að skólagarðarnir séu „yngri deildin“, þar sem 6-13 ára börnum er boðið að setja niður útsæði og grænmetisplöntur og rækta sumarlangt undir leiðsögn leiðbeinenda. Kópavogsbær útvegar plöntur og allt sem til þarf. Garðlöndin væri þá „eldri deildin“ en þó ekki endilega meistaradeild, því allur gangur er á hversu reynslumikið fólk er í ræktun. En þá er bara að kynna sér málin og rækta garðinn sinn.

Enn eru lausir skikar og kassar í garðlöndunum þó sumstaðar sé að verða uppselt. Sömuleiðis er innritun í skólagarðana hafin. Áhugasömum er bent á að sækja um á heimasíðu Kópavogsbæjar en þar er einnig að finna nánari upplýsingar um hvort tveggja.

Friðrik Baldursson, garðyrkjustjóri Kópavogi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar