Tekjur Kópavogsbæjar gætu hækkað um420 milljónir króna þegar allt er tekið með

Ríki og sveitarfélög undirrituðu rétt fyrir jól samkomulag um breytingu á fjárhagsramma þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk. Samkomulagið felur í sér að útsvarsprósenta sveitarfélaga hækkar um 0,23% með samsvarandi lækkun tekjuskattsprósentu ríkisins. Hækkunin nemur um sex milljörðum króna miðað við árið 2024. Í kjölfar samkomulags frá í desember 2022 fluttust 5,7 milljarðar króna frá ríki til sveitarfélaganna miðað við árið 2024 og er heildarhækkun því tæplega 12 milljarðar króna.

Frá því að yfirfærsla á þjónustu við fatlað fólk átti sér stað frá ríki til sveitarfélaga árið 2011 hefur orðið mikil framþróun í málefnum fatlaðs fólks, ásamt því að gerðar hafa verið lagabreytingar um aukna þjónustu. Ríkið hefur komið til móts við sveitarfélögin með aukinni fjármögnun en sveitarfélögin hafa engu að síður staðið frammi fyrir útgjaldaaukningu í málaflokknum. Núverandi samkomulagi er ætlað að koma til móts við það. Hækkun útsvarsins mun renna í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og verða hluti af framlögum sjóðsins sem veitt eru til sveitarfélaga vegna málefna fatlaðs fólks.

Tekjur muni aukast

Kópavogspósturinn spurði Ásdísi hvaða áhrif þetta samkomulag muni hafa á fjárhagsáætlun Kópavogs fyrir árið 2024? ,,Það er ljóst að tekjur munu aukast þar sem stærri hluti af skatttekjum hins opinbera mun renna til sveitarfélaganna í formi hækkaðs útsvars. Miðað við „reiknaða útgjaldaþörf á árinu 2024 samkvæmt áætlun Jöfnunarsjóðs má ætla að tekjur Kópavogsbæjar kunni að hækka um sirka 420 m.kr. þegar allt er tekið til, vegna þessarar ákvörðunar,” segir hún.

Hallinn nærri 3,5 milljarðar

Þú hefur rætt um að fjárframlögin til Kópavogs vegna málefnis fatlaðra hafi verið vanáætluð af ríkinu á undanförnum árum sem nemur um 3 milljörðum ef ég man rétt. Hefur þetta samkomulag einhver áhrif á það og verður þetta reiknað afturvirkt? ,,Það er ekki að sjá að neitt sé að koma afturvirkt upp í vanáætluð framlög. Það er rétt, að 2019-2021 voru framlögin tæpir 3 milljarðar en séu árin 2020-2022 tekin, þá er hallinn nær 3,5 milljörðum. Þetta á semsagt við um allan málaflokkinn. Ef við skoðum bara einangrað það sem fylgdi með við yfirfærslu málaflokksins á sínum tíma auk viðbótar á samskonar starfsemi, þá verður hallinn minni, eða á bilinu 500 – 600 m.kr. á ári undanfarin ár. Það sem hinsvegar truflar þessa einangruðu sýn er, að við yfirfærsluna jókst álagið á þá liði sem voru fyrir, þannig að við teljum rétt að skoða heildarverkefnið, ekki bara hluta þess. Heildarútgjöld til þessa verkefnis var um 140 m.kr. á árinu 2010 en tæplega 3.300 m.kr. á árinu 2022,” segir hún og bætir við að lokin. ,,Þó samkomulagið sé áfangi í að leiðrétta vanfjármögnun málaflokksins er ljóst að talsverð vinna er fram undan að ákvarða endanlega kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Við vonumst til að sú vinna haldi áfram á árinu 2024.”

Þróun og nýsköpun í þjónustu við fatlað fólk

Þá kemur fram að aðilar samkomulags- ins, Ríki og sveitarfélög, eru sammála um að gera þurfi breytingar á framkvæmd þjónustu við fatlað fólk til þess að tryggja sambærilega þjónustu milli sveitarfélaga og betri nýtingu fjármagns. Þá eru aðilar samkomulagsins sammála um að haldið verði áfram með kortlagningu, greiningu og gerð tillagna um stöðu og framtíð barna og ungmenna með fjölþættan vanda, einstaklinga 18 ára og eldri sem dæmdir hafa verið til að sæta öryggisgæslu eða öðrum öryggisráðstöfunum, og tillagna um stöðu og framtíð þjónustu við ungt fólk á hjúkrunarheimilum. Auk þess verður vinnu haldið áfram við stefnu og framkvæmdaáætlun til 7-10 ára um framtíðaruppbyggingu í þjónustu við fatlað fólk á heimilum sínum.

Loks hafa aðilar samkomulagsins samþykkt að stofnaður verði sérstakur framtíðarhópur fulltrúa ríkis og sveitarfélaga sem vinna mun að þróun og nýsköpun í þjónustu við fatlað fólk. Ríki og sveitarfélög munu veita tímabundið framlag til þróunarkostnaðar í þjónustu við fatlað fólk.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar