Um tveir mánuðir eru liðnir síðan starfsemi í leikskólanum Urriðaból 2 við Holtsveg í Urriðholti hófst, en leikskólinn þykir ákaflega fallegur og vel hannaður. Leikskólinn er rekinn af Skólum ehf. eins og Urriðaból 1, sem er staðsettur í Kauptún, um 100 metra frá leikskólanum við Holtsveg.
Skólar ehf. leggja megin áherslu á Heilsu- eflandi leikskóla, en fyrirtækið sem var stofnað árið 2000 af feðgunum Guðmundi Péturssyni og Pétri R. Guðmundssyni hóf rekstur leikskóla árið 2001.
Í dag rekur fyrirtækið 6 heilsuleikskóla sem allir starfa samkvæmt Heilsustefnu, sem kennd er við Unni Stefánsdóttur, og hafa auk þess tekið virkan þátt í þróun verkefnisins Heilsueflandi leikskóli í samvinnu við Embætti landlæknis.
Garðapósturinn heyrði hljóðið í Ragnheiði Gunnarsdóttur, leikskólastjóra á Urriðabóli 2 og spurði hana meðal annars hvernig stemmningin sé í leikskólanum og hvort starfið fari ekki vel af stað í þessum fallega leikskóla.
Hvernig er hljóðið í Ragnheiði og starfsfólki leikskólans eftir fyrsta mánuðinn? ,,Við berum okkur vel í Urriðabóli. Við erum nú þegar búin að opna 3 deildir og er aðlögun barna þar í fullum gangi. Þessar þrjár deildir eru skipuð 32 börnum fædd árið 2020, sem við færðum á milli leikskólanna.”
Og á hvaða aldri eru börnin og hvernig líður þeim í þessum nýja leikskóla? ,,Elsti árgangur hjá okkur er fæddur 2020, við erum að taka inn börn fædd 2021 á þriðju deild leikskólans. Leikskólinn er einstaklega fallegur og líður börnum mjög vel bæði í starfi og leik. Að sjálfsögðu er mikið af breytingum fyrir bæði börn og starfsfólk að koma inn í nýtt umhverfi og tekur það alltaf smá tíma fyrir alla að aðlagast. En við erum svo heppin að hafa flott starfsfólk með okkur og að sjálfsögðu dugleg börn svo þessi tími er bara skemmtilegur fyrir alla.”
Og þetta er einstaklega fallegur leikskóli en hefur verið vel hugsað um alla þá hluti sem tilheyra góðri leikskólaaðstöðu? ,,Leikskólinn er eins og áður sagði mjög fallegur og hannaður með börn í huga og er öll aðstaða til mikillar fyrirmyndar. Aðstaða starfsfólks er einnig mjög vel út hugsuð og öll rými eru hönnuð með daglega starfsemi í huga, hvort sem um ræðir innanhúss eða utan.”
Og svo útiaðstaðan mjög skemmtileg, fjölbreytt leiktæki og margt í boði? ,,Útiaðstaðan er mjög góð og mikið í boði til að skapa góðan og fjölbreyttan leik fyrir börnin. Þar sem Urriðaból er einn leikskóli með tvær starfsstöðvar nýtum við garðinn fyrir báða leikskólana og förum við í heimsókn á leikskólalóðirnar með börnin. Stefna Urriðabóls er Heilsustefna svo það er mjög mikilvægt fyrir okkur að vera með umhverfi sem styður við hana. Gott aðgengi að fallegri náttúru, rými til sköpunar og tilrauna í leik og starfi ýtir undir faglegar og skemmtilegar athafnir.”
Ekki má gleyma starfsmannaaðstöðunni eins og þú nefnir sem er á annarri hæð leikskólans, þar geta starfsmenn eiginlega kúplað sig út úr amstri leikskólastarfsins? ,,Starfsmannaaðstaðan er á efri hæð leikskólans og er kaffistofa, undirbúningsherbergi, fundaherbergi og skrifstofur skólastjórnenda og fer einstaklega vel um okkur þar sem er dásamlegt útsýni og huggulegheit. Það skiptir miklu máli fyrir okkar starfsfólk að það hafi rými til þess að draga sig til hlés og geta þannig skipulagt starfið í ró og næði. Þessi starfsmannaaðstaða ýtir undir það svo sannarlega.”
Eru að ráða fólk til starfa
Leikskólinn við Holtsveg er sex deilda leikskóla með pláss fyrir 126 börn, en nú hefur verið mönnunarvandi í leikskólum landsins almennt. Hvernig er staðan hjá ykkur, er leikskólinn kom-inn í fulla notkun og hvernig hefur gengið að fá starfsfólk til að starfa? ,,Já það er rétt hjá þér, víðsvegar er mikill vandi þegar að kemur að ráðningu starfsfólks. Þrátt fyrir það höfum við náð að fullmanna þrjár deildir leikskólans og erum að vinna í að ráða til starfa fólk á fjórðu deildina til að geta opnað hana. Við erum með virkar auglýsingar og krossum bara fingur og vonum það besta,” segir hún brosandi og bætir við: ,, Við erum nú þegar komin með 70 börn í leikskólann, af 126 börnum, sem verður bara að teljast nokkuð gott á fyrstu mánuðum leikskólans myndi ég halda.”
Og það ætti að vera spennandi fyrir leik-skólakennara að starfa í þessum einstaka leikskóla, þar sem allt er til alls og starfsmannaaðstaðan upp á 10? ,,Við viljum jú meina að það sé eftirsóknarvert að starfa við skólann okkar. Það er hins vegar ekkert leyndarmál að flestir leikskólar á höfuðborgarsvæðinu eru að kepp- ast sín á milli um starfsfólk svo það getur verið tímafrekt að fullmanna leikskólana. Við verðum bara að vona að okkur gangi vel að ráða til okkar starfsfólk.”
Og Garðabær hefur á undanförnum vikum auglýst grimmt eftir starfsfólki í leikskóla bæjarins og boðið ákveðin hlunnindi með? ,,Jú það er rétt. Garðabær er búinn að vinna mjög gott starf sem skilar sér í betra starfsumhverfi, bæði fyrir starfsfólk og börnin okkar, sem vonandi skilar sér í að við fáum gott starfsfólk til okkar í bæjarfélagið.”
Hvenær vonist þú til að koma leikskólanum í fulla noktun? ,,Við vonum að við getum mannað allar stöður sem allra fyrst og opnað allar deildir leikskólans, en það er engin leið að spá um hvenær það verður að veruleika. Við erum auðvitað bjartsýn og trúum að það gangi vel fyrir sig.”
En stemmningin er góð og sumarið á næsta leiti? ,,Við hlökkum mikið til sumarsins þar sem Urriðaból 1 og 2 er í fallegu umhverfi sem eru mikil forréttindi svo við munum auðvita nýta okkur það. Börnin hafa mikla ánægju af því að vera úti að leika sér svo það er ekki hægt að segja annað en að það sé mikil tilhlökkun fyrir sumarstarfinu og útiveru eftir fremur kaldan vetur,” segir Ragnheiður að lokum.