Fyrir hverja er byggt í Kópavogi?

Hvað segja lögin?
Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1990 er skýrt tekið fram að sveitarstjórnir skuli eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leigu-, félagslegum- og/eða eignaríbúðum fyrir fjölskyldur og einstaklinga sem ekki hafa getu til eða ráð á að sjá sér fyrir húsnæði af eigin rammleik.

Sagan
Fram til 1998 voru verkamannabústaðir leið sveitarfélaga til að sinna þessari kröfu. Kópavogur stóð að byggingu þó nokkurra fjölbýlishúsa sem féllu undir verkamannabústaði og var það vel. Einnig keypti bærinn íbúðir í þegar byggðum fjölbýlishúsum og lagði til kerfisins sem leiguíbúðir. Eftir að kerfið var lagt niður 1998 af ríkisstjórn sjálfstæðis- og framsóknarmanna var ekkert sem greip það fólk sem áður átti þar skjól. Félagslegt húsnæði á vegum sveitarfélaga tryggir aðeins þeim allra verst settu húsnæði en fólk getur þurft að bíða í nokkur ár eftir úthlutun innan þess. Það var ekki fyrr en 2016 að óhagnaðardrifna íbúðaleigufélagið Bjarg var stofnað af ASÍ og BSRB. Það var ætlað fyrir þá sem uppfylltu ekki skilyrði fyrir félagslegt húsnæði en gátu samt ekki staðið undir kaupum á eigin íbúð eða leigu á almennum markaði. Með 30% framlagi ríkis og sveitarfélags og kröfu um óhagnaðardrifinn rekstur er hægt að halda leiguverði í lágmarki. Reykjavík og Hafnarfjörður riðu á vaðið og lögðu til lóðir. Síðan hafa mörg sveitarfélög fylgt í kjölfarið, þar með talin öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu nema Seltjarnarnes og Kópavogur.

Staðan í Reykjavík
Reykjavíkurborg hefur rutt brautina í þessum málaflokki. Í byrjun janúar s.l. var skrifað undir samkomulag ríkisins og Reykjavíkur sem byggir á rammasamning sem samþykktur var af ríkinu (HMS) og Sambandi íslenskra sveitarfélaga í júlí 2022 um uppbyggingu á hagkvæmum íbúðum á tímabilinu 2023-2032 og fjármögnun á því. Í því fellst m.a. að borgin mun tryggja að 5% af öllu íbúðahúsnæði borgarinnar verði innan félagslega kerfisins og 30% innan almenna kerfisins sem nær utan um öll húsnæðisfélög sem ekki eru rekin í ágóðaskyni. Í dag eru 5,3% allra íbúða í Reykjavík innan félagslega kerfisins og þúsundir íbúða í byggingu eða hönnun eru innan almenna kerfisins.

Staðan í Kópavogi
Frá síðustu aldamótum hafa mörg hverfi verið byggð á bæjarlandi í Kópavogi. Sjálfstæðis- og framsóknarmenn hafa staðið í brúnni nánast óslitið allan þann tíma. Þrátt fyrir alla möguleika á að standa vel að uppbyggingu fyrir þann hóp sem ekki getur tryggt sér öruggt húsnæði af eigin rammleik hefur lítið gerst á þeim tíma. Í Kópavogi eru 2,96% íbúðarhúsnæðis innan félagslega kerfis bæjarins, alls 462 íbúðir og að jafnaði eru á biðlista inn í kerfið um 130 aðilar. Þess utan hefur ekkert verið byggt fyrir þá sem eru í neðstu tekjuþrepunum. Engar lóðir hafa verið lagðar til óhagnaðardrifinna íbúðaleigufélaga, íbúða fyrir eldri borgara né búseturéttaríbúða. Engar námsmannaíbúðir eru í Kópavogi, en þær má t.d. finna í Hafnarfirði, og fyrstu íbúðar kaupendur geta ekki gengið að húsnæði í Kópavogi sem er nógu ódýrt fyrir þá fjármögnunaraðstoð sem þeim býðst af hálfu ríkisins.

Afleiðingarnar
Hvaða áhrif hefur það á samfélagið í Kópavogi þegar sveitarfélagið notar ekki skipulagsvaldið til að tryggja öllum öruggt húsnæði? Verktakar byggja það húsnæði sem þeir telja sig græða mest á hverju sinni. Ekkert er óeðlilegt við það. Það er í höndum skipulagsvaldsins að setja þeim skorður. Ungt fólk fer þangað sem það getur keypt húsnæði á viðráðanlegu verði og þeir eldri sem í dag eiga mest fé á Íslandi kaupa dýru íbúðirnar í Kópavogi. Afleiðingarnar – hlutfall íbúa Kópavogs, 67 ára og eldri er 1,5% hærra en sambærilegt hlutfall á höfuðborgarsvæðinu. Sem mun þyngja þjónustu bæjarins við eldri borgara þegar fram í sækir. Þessi þjóðfélagshópur er einnig líklegastur til að lifa á fjármagnstekjum sem eru ekki hluti af útsvari til sveitarfélaga.
Það er auðvelt að líta undan og láta Reykjavík um þetta grundvallarmál en er það boðlegt fyrir næst stærsta sveitarfélag landsins?

Bergljót Kristinsdóttir
Oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar