Allir vita að sumarblóm fegra umhverfið, gleðja augað og gefa lífinu lit, en eins og nafnið gefur til kynna þá lifa þau bara sumarið. Nú er sumarið gengið í garð og bæjarbúar hafa tekið eftir því undanfarin ár hversu Garðabær er fallega skreyttur litmiklum og fjölbreyttum sumarblómum.
Garðapósturinn heyrði því í Jóhönnu Kristínu Jóhannsdóttur, garðyrkjufræðing Garðabæjar og spurði hana um undirbúning og komu sumarblómanna í Garðabæ. ,,Markmið Garðabæjar er að vera fallegur og snyrtilegur bær í góðu samfélagi. Til þess að skreytingar vorsins fái að njóta sín byrjar garðyrkjudeildin að skipuleggja næsta sumar að hausti. Það er gert með því að ákveða plöntutegundir og liti, en blómaframleiðendur þurfa líka tíma til að skipuleggja sig, panta fræin og rækta plönturnar. Allt tekur þetta sinn tíma,” segir hún og heldur áfram: ,,Við fáum sumarblómin yfirleitt afhent í lok maí og þá er lagt kapp á að koma þeim út sem fyrst. Við miðum við að sem flest sumarblóm verði gróðursett fyrir 17. júní þannig að bærinn verði sem glæsilegastur,” segir Jóhanna Kristín.
Um 5000 sumarblóm á Garðatorgi
,,Þegar sumarblómin eru komin í hús er fyrsta verkefnið okkar að útbúa blómakörfurnar sem hanga á staurum á Garðatorgi. Stóru blómakörfurnar eru 68 talsins og í þær fara samtals 1.700 blóm. Blómavalið verður eins og undanfarin ár nema það verða bleikar stjúpur í stað gulra í körfunum, en stjúpur eru mjög harðgerð sumarblóm. Litlu blómakörfurnar eru 16 talsins og í þær fara samtals 48 blóm. Oft hafa verið notuð bleik tóbakshorn eða gular og appelsínugular skjaldfléttur en í sumar verða himinblá vinablóm í litlu körfunum. Það tekur um þrjá daga að gera allar blómakörfurnar tilbúnar, þær þurfa helst að standa í hlýju umhverfi í viku til tíu daga til að ná að dafna og þéttast áður en þær eru hengdar upp,“ segir hún.
Garðbæingar munu sjá marglitiðu gleðiblóm í fyrsta sinn í sumar
,,Þegar blómakörfurnar eru tilbúnar er lögð áhersla á að klára allar aðrar gróðursetningar á Garðatorgi. Í ár ætlum við að prufa í fyrsta sinn að vera með skrautkál í nokkrum kerjunum á Garðatorgi, en skrautkál er harðgerð káltegund sem getur staðið langt fram á haust. Einnig verða prófaðar blómategundir sem ekki hafa verið áður til dæmis marglituð gleðiblóm, fagurblá höfuðstjarna og hvít og bleik brúðarstjarna. Blómum er síðan plantað í öll steyptu kerin sem sjást víða um bæinn og loks í fyrir fram ákveðin gróðurbeð sem fyrst þarf að stinga upp áður en hægt er að gróðursetja í þau,“ segir Jóhanna.
Garðyrkjudeildin hlaðin verkefnum í allt sumar
,,Þegar sumarstarfsfólkið fer að tínast inn í byrjun sumars fer garðyrkjudeildin á fullt því okkar bíða fjölmörg verkefni. Það þarf að dreifa áburði á alla leikskólalóðir, manir, trjábeð og opin svæði. Undirbúa þarf matjurtagarða og skólagarða bæjarins fyrir starfsemi sumarsins og undirbúa öll sumarblómabeðin, stinga þau upp og hreinsa allan arfa. Yfir sumarið eru helstu verkefni sumarstarfsfólksins að halda gróðurbeðum hreinum, undirbúa og gróðursetja sumarblóm, útbúa blómakörfur, götuker og gróðurbeð, sanda beð, kantskera, þökuleggja og halda bænum snyrtilegum,“ segir hún.
Stórt samvinnuverkefni að sjá til þess að bæjarfélagið líti vel út
,,Það er stórt samvinnuverkefni margra aðila að sjá til þess að bæjarfélagið líti vel út. Verkefnin eru mörg og fjölbreytt þannig að gott samstarf milli garðyrkjudeildar, áhaldahúss, umhverfishópa og vinnuskólans er nauðsynlegt,“ segir blómarósins Jóhanna og bætir við að lokum: ,,Deildirnar vinna allar að sama markmiði sem er að hafa ásýnd Garðabæjar sem snyrtilegastan, bæjarbúum og öllum sem eiga leið um bæinn til sóma.“
.